Dagana 1. til 6. júlí  2014 verður áttunda NEATA-leiklistarhátíðin haldin, að þessu sinni í Porvoo í Finnlandi. Hátíðin verður með hefðbundnu sniði; leiksýningar frá öllum NEATA-löndunum og tveimur öðrum evrópulöndum að auki, gagnrýni, leiksmiðjur, námskeið og samvera í hátíðarklúbbi.

Fyrir og samhliða hátíðinni í Porvoo verður hálfs mánaðar leiksmiðja á vegum NEATA-Youth.

Aðildarlönd NEATA eru Danmörk, Eistland, Finnland, Færeyjar, Ísland, Lettland, Litháen, Noregur og Svíþjóð.

Hvert land má senda eina leiksýningu sem er að hámarki 90 mín. löng. Leikið verður á leiksviðum í hefðbundnum leikhúsum. Hátíðin greiðir uppihald og þátttöku í hátíðinni fyrir 10 manna hópa frá hverju landi, ef hóparnir eru stærri bera þeir sjálfir umframkostnað vegna uppihalds. Leikhóparnir gista í tveggja til fjögurra manna herbergjum á gistiheimilum. Ferðakostnaðinn geiða þátttakendur sjálfir en hátíðahaldarar sækja þátttakendur á flugvöllinn í Helsinki.

Aðildarfélög Bandalags ísl. leikfélaga geta sótt um að fara með sýningu á hátíðina. Þau sækja um til Bandalagsins fyrir 3. janúar 2014 á þar til gerðum eyðublöðum sem finna má hér. Upptökur af sýningum þurfa að fylgja umsóknum. Ef fleiri en ein sýning sækir um skipar stjórn Bandalagsins valnefnd sem velur sýningu.
Ísland þarf að tilkynna Finnum hvaða leiksýning fer á hátíðina fyrir 10. janúar 2014.

NEATA, norður evrópska áhugaleikhúsráðið, var stofnað 1998 og heldur samskonar hátíðir á tveggja ára fresti, en þau lönd sem hafa skipulagt fyrri hátíðir eru Litháen, Svíþjóð, Eistland, Færeyjar, Lettland, Ísland og Danmörk.

Sækja þarf um til Bandalags íslenskra leikfélaga, Kleppsmýrarvegi 8, 104 Reykjavík, fyrir 3. janúar 2014.

Nánari upplýsingar http://www.neata2014.fi/start/

 

NEATA-Youth leiksmiðja

Fyrir og samhliða hátíðinni í Porvoo verður hálfs mánaðar leiksmiðja á vegum NEATA-Youth (18-25 ára norðurevrópsk ungmenni).

Yfirskrift leiksmiðjunnar er „Understanding theatre – Understanding people“.

Leiksmiðjan hefst 22. júní og stendur til 6. júlí. Verkefni hennar verður að búa til leiksýningu sem sýnd verður á hátíðinni ásamt því að hjálpa til við undirbúning og skipulagningu hátíðarinnar og móttöku leikhópa og gesta. Unnið verður í litlum hópum sem hver og einn verður með sinn eigin leikstjóra undir yfirstjórn leiklistarmenntaðs leikstjóra/leikara.

Þátttakendur greiða 100 EUR í þátttökugjald og innifalið í því er þátttaka í leiksmiðju og hátíð, gisting og fæði og einhver ferðakostnaður.

Finnar bjóða þremur þátttakendum frá hverju NEATA-landi og hægt er að sækja um annað hvort sem leikari eða leikstjóri.

Sækja þarf um til Bandalags íslenskra leikfélaga, Kleppsmýrarvegi 8, 104 Reykjavík. Ekki þarf að filla út sérstök umsóknareyðublöð en gefa þarf upp nafn, kennitölu, heimilisfang, síma og netfang ásamt lýsingu á leiklistarbakgrunni umsækjanda og stuttri skýringu á því hvers vegna hann telur sig eiga erindi á leiksmiðjuna.

Sækja þarf um fyrir 3. janúar 2014 og þátttökugjaldið þarf að greiða fyrir 10. janúar.

Nánari upplýsingar http://www.neata2014.fi/neata_youth/