Nazanin er nýtt sviðslistaverk í leikstjórn Mörtu Nordal um írönsku flóttakonuna Nazanin Askari.
„Ég fæddist fyrir 28 árum. Það eru liðin 36 ár síðan íran varð íslamskt ríki, síðan öllum konum var gert að ganga með slæður, ritskoðun komið á og frelsi borgara skert. Fyrir 36 árum breyttist allt í mínu landi. Það sem áður var slæmt, varð einungis verra. Draumar um betra líf eftir byltinguna 1979 urðu að engu.“
Nazanin Askari er ung írönsk kona sem flúði frá Íran aftir Grænu byltinguna sem varð í kjölfar forsetakosninganna árið 2009. Ahmadinejad, þá sitjandi forseti, sigraði í kosningunum en talið var víst að svindlað hefði verið við talningu. Þjóðin þusti út á göturnar til að mótmæla, margir voru handteknir og fjöldi yfirgaf landið. Nazanin átti yfir höfði sér fangelsivist. Því flúði hún og tók ferðalagið um 2 ár.
Nazanin er pólitískur flóttamaður, hefur nú búið á Íslandi í rúmlega þrjú ár og bíður eftir ríkisborgararétti. Hún er menntuð ung kona frá góðum bakgrunni og átti farsælt líf í Íran þar til hún fór að skipta sér af stjórnmálum og brjóta þær reglur sem gilda um konur.
Nú stígur Nazanin á svið og segir sögu sína í eigin persónu. Hún er hreinskilin og afdráttarlaus í skoðunum og veitir okkur innsýn inní menningarheim sem er okkur í senn bæði fjarlægur og nálægur.
Áhrifarík saga sem lætur fá ósnortna.
Verkið var frumsýnt á leiklistarhátíðinni Lókal á dögunum.
Aðstandendur
Höfundur og leikstjóri: Marta Nordal
Flytjandi: Nazanin Askari
Videolist: Helena Stefánsdóttir
Aðstoðarkona: Hanna Steinmair
Sýningatímar
Föstudagur 18. september, kl. 20:30 Frumsýning
Laugardagur 19. september, kl. 20:30
Sunnudagur 27. september, kl. 20:30
Miðvikudagur 7. október, kl. 20:30