Leikfélag Hveragerðis sýnir Naktir í náttúrunni, Athyglisverðustu áhugasýningu leikársins 2016-17, í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 15. júní kl. 19.30.
Miðasala er í Þjóðleikhúsinu og á Tix.is . Miðaverð er 3.000 kr.
Úr umsögn dómnefndar:
Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta og fjórða sinn. Að þessu sinni sóttu alls ellefu leikfélög um að koma til greina við valið með tólf sýningar.
Að valinu á áhugasýningu ársins komu að þessu sinni fjórir leikarar úr leikhópi Þjóðleikhússins, þau Atli Rafn Sigurðarson, Edda Arnljótsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Snorri Engilbertsson, ásamt Ara Matthíassyni þjóðleikhússtjóra.
Fyrir valinu að þessu sinni sem áhugasýning ársins varð sýning Leikfélags Hveragerðis á Naktir í náttúrunni.
Umsögn dómnefndar um sýninguna er svohljóðandi:
„Naktir í náttúrunni í uppsetningu Leikfélags Hveragerðis er leikgerð leikstjórans, Jóns Gunnars Þórðarsonar, sem byggð er á The Full Monty, verki um atvinnulausa menn sem taka sig saman og fara að æfa strippdans til að hafa í sig og á. Þessi leið, að vinna með þekkt verk og aðlaga það leikhópnum og aðstæðum í heimabyggð, heppnast hér ákaflega vel, og sýningin öðlast aukinn áhrifamátt við það að atvinnumissir persónanna er settur í kunnuglegt samhengi. Verkið krefst ákveðinnar djörfungar af leikhópnum, og hópurinn leggur sig allan fram í metnaðarfullri, kraftmikilli og skemmtilegri sýningu.“
Þjóðleikhúsið óskar Leikfélagi Hveragerðis til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna sýninguna í Þjóðleikhúsinu í júní.