Þráinn Karlsson hefur starfað hjá LA í fimm áratugi og var meðal þeirra leikara sem fyrst fengu fastráðningu þegar LA varð atvinnuleikhús árið 1973. Síðan þá hefur hann farið með mörg hlutverk fyrir félagið, stór og smá. Þar má meðal annarra nefna Sganarelle í Don Juan, Skrifta-Hanns í Ævintýri á gönguför, Þórð í Stalín er ekki hér, Bjart í Sjálfstæðu fólki, Matta í Púntilla og Matta, Anton Antonovitsj í Eftirlitsmanninum, Roulin bréfbera í Bréfberanum frá Arles, hlutverk í My Fair Lady og í Edith Piaf, Ezra Pound í Skjaldbakan kemst þangað líka, Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni, Eddie Carbone í Horft af brúnni, karlhlutverkin í BarPari, Fangavörðinn í Leðurblökunni, Charlie Baker í Útlendingnum, Angel í Undir berum himni, Jeeter Lester í Tobacco Road, Póloníus í Hamlet, og Ananías í Gullbrúðkaupi, og er þá fátt eitt talið. Hann hefur einnig leikstýrt nokkrum vinsælustu sýningum félagsins, svo sem Ættarmótinu, Fátæku fólki og nú síðast Blessuðu barnaláni. Þá hefur Þráinn hannað og smíðað leikmyndir. Árið 1974 stofnaði hann Alþýðuleikhúsið ásamt með öðrum og vann með því að nokkrum sýningum svo sem Krummagulli og Skollaleik. Hann starfaði um tíma í Þjóðleikhúsinu og hefur leikið í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Þráinn vinnur einnig að myndlist og helgaði sig slíkum störfum veturinn 1995-1996 en þá var hann bæjarlistamaður Akureyrarbæjar. Í vetur hefur hann leikið í öllum uppsetningum LA, Fullkomnu brúðkaupi, Maríubjöllunni og Litlu hryllingsbúðinni.
Í tilefni leikafmælis Þráins verður hátíðarsýning í kvöld, þriðjudaginn 28. mars á Litlu hryllingsbúðinni, þar sem Þráinn fer með eitt aðalhlutverkið. Samstarfsmenn Þráins í gegnum tíðina munu heiðra hann með nærveru sinni auk annarra sem tengjast leikhúsinu og Akureyrarbæ. Sýningin hefst kl. 20.
Ríkissjónvarpið vinnur að gerð heimildarmyndar um lífshlaup Þráins.