Á tíu ára afmæli Möguleikhússins árið 2000, var leikverkið Völuspá eftir Þórarin Eldjárn frumsýnt í Tjarnarbíói á Listahátíð í Reykjavík. Sýningin hlaut góðar viðtökur, vann til Grímuverðlauna og var sýnd á leiklistarhátíðum viða um lönd.
Nú fagnar Möguleikhúsið 25 ára afmæli með uppsetningu á leikverkinu Hávamál eftir Þórarin Eldjárn og leikhópinn. Leikstjóri er Daninn Torkild Lindebjerg, en hann leikstýrði sýningunni Tveir menn og kassi hjá Möguleikhúsinu, sem tilnefnd var til Grímuverðlauna 2004. Sýningin er unnin í samvinnu við Teater Martin Mutter í Svíþjóð, en þaðan kemur búningahönnuður verksins.
Í verkinu kallast hin forna speki Hávamála á við ýmis atriði sem þekkt eru í daglegu lífi samtímans og glímunni við veruleika hversdagsins.
Unglingsstúlka og móðir hennar hafa villst á fjöllum. Þær koma að sérkennilegu tré þar sem þeim birtist dularfullur maður er kemur undarlega fyrir. Er hann kominn til að hjálpa, eða aðeins til að rugla þær í ríminu? Er þetta geðsjúklingur, helgur maður, tröll eða jafnvel hinn forni guð Óðinn? Hann skiptir sífellt um hlutverk, talar öðrum þræði í bundnu máli og misskiljanlegum heilræðum, en áður en yfir lýkur þurfa mæðgurnar að horfast í augu við sjálfar sig og samskiptin sín á milli.
Aðeins verða þrjár sýningar á Hávamálum í Tjarnarbíói, en á komandi vetri verður verkið boðið til sýninga í framhaldsskólum og unglingadeildum grunnskóla.
Höfundur: Þórarinn Eldjárn og leikhópurinn
Leikstjóri: Torkild Lindebjerg
Leikmynd: Rósa Sigrún Jónsdóttir
Búningar: Catherine Giacomini
Tónlist: Guðni Franzson
Söngur: Stefán Franz Guðnason, Megas
Lýsing: Ólafur Pétur Georgsson
Leikarar: Pétur Eggerz, Alda Arnardóttir og Anna Brynja Baldursdóttir
Verkið á heimasíðu Tjarnarbíós: http://tjarnarbio.is/?id=990
Verkið á Miða.is: http://midi.is/leikhus/1/8886/Havamal