Móðurharðindin eftir Björn Hlyn Haraldsson verður frumsýnt í Kassanum 5. september. Þetta er annað leikrit Björns Hlyns en verk hans Dubbeldusch var frumsýnt við góðan orðstýr á leikfélagi Akureyrar fyrir nokkrum árum. Björn Hlynur er einn af okkar fremstu kvikmynda- og sviðsleikurum og er einn af stofnmeðlimum leikhópsins Vesturports. Á þessu leikári mun Björn Hlynur leika í Heimkomunni eftir Harold Pinter í Þjóðleikhúsinu.
Móðurharðindin fjalla um móður sem stöðugt fer sínu fram og börnin sem þurfa að taka afleiðingunum. Nema nú er mælirinn fullur! Gamanleikur um samskipti móður og barna og harkaleg átök kynslóðanna, þar sem kynhlutverkin eru stokkuð rækilega upp.
Ólíkindatólið Friðrika er nýorðin ekkja og býr ein í gömlu, ríkmannlegu húsi. Hennar eini félagsskapur er húshjálpin Snæbjörn sem lætur lítið fyrir sér fara. Börnin hennar María og Arnmundur hafa ekki séð móður sína í mörg ár en snúa nú aftur á ættaróðalið til að fylgja föðurnum til grafar. Presturinn Svalbrandur gerir sitt besta til að fá rétta mynd af lífi hins látna en það leynist margt undir yfirborðinu og jarðarförin á eftir að setja líf þeirra allra úr skorðum.
Sprenghlægilegt uppgjör við fyrirbærið „fjölskyldu“ með bræðrunum Árna Pétri Guðjónssyni og Kjartani Guðjónssyni í aðalhlutverkum og hinum frábæru gamanleikurum Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, Sigurði Sigurjónssyni og Hallgrími Ólafssyni.