Það er alltaf áhugavert að fara á sýningar áhugaleikfélaganna í menntaskólunum. Þarna fer oft saman mikil sköpunarþörf, umtalsverðir hæfileikar og góð vinna leikstjóra og tæknifólks. Á meðan sum félögin róa á nokkuð örugg mið varðandi verkefnaval og krefjandi leiklistarsköpun eru önnur óhrædd við að taka áhættu í bæði verkefnavali og listrænum metnaði. Í þeim hópi er einna fremst í flokki Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð sem hefur á síðustu árum sett upp margar áhugaverðar og krefjandi sýningar sem stundum hafa tekist afar vel og eins miður.

Það má segja um sýningu þeirra Draugadans sem ég sá í Tjarnarbíó um helgina hafi hvort tveggja átt við.

Í Draugadansi hafa leikstjóri og leikhópurinn ákveðið að takast á við nokkrar af þekktustu draugasögum okkar, Djáknanum frá Myrká og Miklubæjar-Sólveigu og slengt þeim saman við Bakkabræður og útburðarbörn þjóðarinnar. Það verður nú að segjast eins og er að ekki gengur sú leikgerð upp. Með því að slíta í sundur söguþráð Djáknans og Sólveigar er kynngimagn og slagkraftur sagnanna fyrir bí og hinar afar skrítnu skiptingar með hinum stundum fyndnu Bakkabræðrum voru eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Eina atriðið sem náði flugi í sýningunni og sýndi í raun hversu öflug sýningin hefði getað orðið var kaflinn um útburðarbörnin. Þarna tókst að fanga óhugnað og grimmd fyrri tíma í mynd sem náði tökum á manni og lokatriði kaflans var eitt það besta sem ég hef séð lengi. Ég held að leikgerðin hefði gengið mun betur upp ef Bakkabræðrum og tjaldskiptingum hefði verið sleppt og meiri áhersla verið lögð á óhugnaðinn í verkunum.

En þrátt fyrir þessa annmarka á sýningunni var margt mjög vel gert. Leikarar stóðu sig vel og má þar nefna Hafdísi Helgu Helgadóttur sem lék Miklabæjar-Sólveigu af miklum fítonskrafti og tilfinningahita, sem leikstjórinn hefði þó mátt tempra stundum. Eins var Almar Barja flottur sem djákninn og Oddur gerði nafna sínum ágætis skil. Ragnheiður Mekkan Ragnarsdóttir stóð sig vel í hlutverki Guðrúnar og Hera Guðbrandsdóttir var brjóstumkennanleg sem móðir sem bar út barn sitt. Leikhópurinn var einbeittur og stóð sig vel í hópsenum.
Það má segja að leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar hafi verið líkt og sýningin heldur brokkgeng. Á köflum nær hann upp fínum stemmningum eins og í byrjun verksins og í útburðarkaflanum en þess á milli eru tempó og skiptingar vandræðalegar og draga úr áhrifamætti verksins. Jón nær ágætis tökum á leikhópnum en hefði þó stundum mátt draga úr ofleik og huga að textameðferð. Leikmynd verksins þjónar verkinu vel en sleppa hefði mátt tjaldi sem dregið var fyrir í sífellu. Lýsingin er vel hönnuð og skapaði oft óhugnanlegar myndir. Tónlistin er mjög góð og þjónar dramtísku atriðum verksins vel, kórinn hæfilega draugalegur og hljómsveitin flínk. Á einstaka stað drukknaði þó söngurinn í hljóðfæraleiknum og má þar líklegast kenna hljóðblöndun um.

Draugadans Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð er metnaðarfull tilraun til að draga fram í nútímann óhugnað og draugskap liðinna alda. Og þó að tilraunin takist ekki að fullu nema í kaflanum um útburðina þá er hann vel þess virði að kíkja á verkið. Draugadans fær hjá mér tvær og hálfa stjörnu.

Lárus Vilhjálmsson