Jóhanna Ástvaldsdóttir og Grétar Guðni Guðmundsson eru bæði stofnfélagar í Leiklistarfélagi Seltjarnarness sem hefur verið starfrækt frá árinu 1998. Þau ásamt öðrum meðlimum leiklistarfélagsins vinna nú að uppsetningu verksins Margt býr í þokunni eftir William Dinner og William Morum í þýðngu Ásgerðar Ingimarsdóttur. Verkið, sem er í leikstjórn Bjarna Ingvarssonar, verður frumsýnt 19. apríl í félagsheimili Seltjarnarness og er því mikið um að vera hjá þeim félögum á lokasprettinum enda mikill metnaður að baki sýningarinnar.

Um tilurð leiklistarfélagsins segja þau Sigríði Þorvaldsdóttur leikkonu hafa verið hvatakonu að stofnun félagsins fyrir rúmum áratug en þá hafði ekki verið starfrækt leikfélag á Seltjarnarnesi í fjölda ára. Sigríður kom að máli við mig eftir að hún sá mig troða upp á þorrablóti hlaupaklúbbs Seltjarnarness og fékk mig til að taka þátt í stofnun leiklistarfélagsins. Í kjölfarið var boðið til fundar þar sem fjöldi áhugasamra komu, segir Grétar. Ég sá þetta auglýst í Nesfréttum og fannst þetta kjörinn vettvangur til að kynnast fólki á Nesinu, segir Jóhanna sem þá var nýflutt á Seltjarnarnesið og Grétar bætir við að kynni þessa hóps hafi heldur en ekki verið góð. Þau segja verkefnaskrá félagsins hafa verið fjölbreytta undanfarin ár. Af síðustu uppsetningum mætti t.d. nefna leikritið Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson og árið eftir settum við upp Blessað barnalán, einnig eftir Kjartan, segir Jóhanna og Grétar bætir við að sú sýning hafi fengið frábæra dóma hjá leiklistargagnrýnanda Morgunblaðsins. Árið 2006 settu þau svo upp Litla Kláus og Stóra Kláus, sem var sýning fyrir alla aldurshópa.

Mikilvægur hlekkur í Menningarlífi bæjarins
Grétar segir að leiklistarfélagið taki mikinn þátt í menningarlífinu á Seltjarnarnesi. Auk næstum árlegra leikritauppfærslna höfum við tekið þátt í uppákomum á 17. júní, Gróttudeginum, sjáum um konung og drottningu á álfabrennunni á þrettándanum og fleira. Jóhanna segir þau einnig hér áður fyrr hafa skemmta eldri borgurum í félagsaðstöðu þeirra og farið þá gjarnan með kafla úr þeim leikritum sem þau voru að æfa. Þau stefni að því að gera þetta aftur. Einnig tókum við þátt í Norrænum upplestrardögum á bókasafninu.

Aðspurð um hvaða þýðingu slíkt menningarstaf hafi fyrir bæjarfélagið segja þau það skipta miklu máli fyrir samfélag sem þetta. Menningarnefnd sýnir metnað í því að það sé öflugt menningarstarf á Seltjarnarnesi eins og er víða um land í bæjarfélögum af sömu stærð, segir Grétar. Jóhanna segir þau alltaf hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð frá bænum og að bæjarsjóður hafa styrkt verkefnin þeirra gegnum árin og ítrekar að þau séu afskaplega þakklát fyrir þann stuðning. Án þeirra framlags hefðum við ekki getað haldið úti svona metnaðarfullri starfsemi.

Allir velkomnir
Hvort meðlimir leiklistarfélagsins komi eingöngu frá Seltjarnarnesi segja þau svo alls ekki vera. Fólk hefur komið hvaðan æva að af Reykjavíkursvæðinu til að taka þátt, segir Grétar og áréttir að allir sem hafa áhuga á leiklist séu velkomnir að taka þátt. Þeim mun fleira fólk sem við fáum til liðs við okkur, þeim mun stærri og metnaðarfyllri sýningar getum við ráðist í.

Jóhanna segir að svona starf sé ekki aðeins gríðarlega gefandi heldur einnig stórskemmtilegt. Mér finnst rosalega gaman að koma heim úr vinnunni og hafa tækifæri til að fara út, hitta skemmtilegt fólk og geta fengið að spreyta mig við að leika aðra persónu en ég er, hoppa út úr amstri hversdagsleikans.

Grétar segir það líka sérstaklega gaman hvað aldurshópurinn hefur verið breiður. Árið 2007 settum við til að mynda upp 40 manna dagskrá í kirkjunni sem var í tengslum við menningardaga en þá var yngsti þátttakandinn 6 vikna gamalt barn en sá elsti um nýrætt. Verkið var flutt í menningarmessa þar sem leikþátturinn sem bar yfirskriftina Lífshlaupið var tvinnaður inn í predikun séra Örnu Grétarsdóttur. Jóhanna bætir við að þetta hafi tekist mjög vel til. Okkar fasti leikstjóri, Bjarni Ingvarsson, leikstýrði og skrifaði.

Langar að setja upp söngleik
Mikill hugur er í þeim félögum fyrir áframhaldandi starf leiklistarfélagsins. Næst væri gaman að taka gott drama en einnig er draumurinn að setja upp söngleik, segir Grétar og Jóhanna bætir við að draumurinn væri einnig að fá fast húsnæði eða fasta aðstöðu svo að leikmynd gæti staðið uppi óhreyfð á meðan æfingar og sýningar væru í gangi, sem myndi leiða til enn stærri og metnaðarfyllri sýninga. Félagsheimilið er að öllu leiti skemmtilegt húsnæði og gaman að setja þar upp leikverk, vandamálið er bara að það eru margir sem berjast um plássið og ekki hægt að láta sviðsmynd standa.

Um leikritið sem nú er væntanlegt á fjalirnar segja þau það vera bráðskemmtilegt gaman sakamálaleikrit.
Margt býr í þokunni fjallar um þrjár eldri konur sem strjúka af fátækra heimili en flækjast óvart inn í óvænta atburðarás glæpa og lyga, segir Grétar en Jóhanna bætir við að hún voni að sem flestir sjái sér fært að koma og líta á afrakstur þeirra ströngu æfinga.

Næstu sýningar á Margt býr í þokunni verða:
19. apríl : Frumsýning kl:20:00
21. apríl : 2 sýning Kl:20:00
23. apríl : 3 sýning Kl:20:00
28. apríl : 4 sýning Kl:20:00
30. apríl : 5 sýning Kl:20:00
3. maí : 6 sýning Kl:14:00

Miðar seldir við innganginn, upplýsingar í síma 696-1314

 

Ragnhildur Sigurðardóttir

 

{mos_fb_discuss:3}