Uppsetning Leikfélags Hólmavíkur á hinum sprellfjöruga gamanleik  Með táning í tölvunni eftir Ray Cooney hefur fengið fádæma góða aðsókn. Það er heimamaðurinn Arnar S. Jónsson sem leikstýrir og fara sjö leikarar með hlutverk í sýningunni og eru flestir þeirra að stíga sín fyrstu skref með leikfélaginu. Auk þeirra tekur annar eins fjöldi þátt í verkefnum á bak við tjöldin.

Þrjár sýningar voru á Hólmavík um páskahelgina og þegar hafa rúmlega 300 hundruð manns séð sýninguna, sem lætur nærri að sé 80% af íbúafjölda á staðnum. Búið er að ákveða að næstu sýningar verði á Hólmavík laugardagana  7. maí og 21. maí og hefjast þær báðar kl 20. Þá er áformað að sýna á Patreksfirði, Þingeyri og Bolungarvík rétt fyrir sjómannadag og enda svo á sýningu í Árneshreppi kringum 17. júní.

Leikfélagið á 30 ára afmæli á þriðjudaginn og auk þessarar uppfærslu er ætlunin að minnast afmælisins með fjölbreyttum hætti síðar á árinu.

{mos_fb_discuss:2}