"..leikhúss- og bókmenntafólk… [er] …einfaldlega skíthrætt við allt alvöruróttækt…"
Einn þátttakenda í Leikþáttasamkeppninni hefur sent vefnum bréf þar sem hann tjáir sig um stöðu mála í íslenskri leikritun. MEIRI FÍFLIN, ÞESSIR IBSEN, BRECHT OG FO!
Sá sem hér setur orð á net sendi eitt lítið örstykki til lénsherrans, í ágæta samkeppni hans. Stykkið var ekki valið í 10-liðið og ekkert við því að segja, ég treysti ekki á það, enda orðinn vanur höfnun á verkum mínum, ekki síst í seinni tíð og þá oftar en ekki augljóslega fyrir róttækni, ádeilu, eins og það hefur jafnvel verið orðað beint. Sum hafa þó fundið náð og jafnvel fengið verðlaun.
Um heilasullið í kollinum fóru hins vegar nokkrir hugleiðingastraumnar af þessu tilefni.
Aðalpersóna mín hér var "Stelpa" og efnið uppreisn hennar. Merkilegt: Alltaf er verið að tala um að vanti leikrit með fleiri og betri hlutverkum fyrir konur. Mér sýnist þetta vera mestan part orðagjálfur, eins og svo margt í jafnréttisumræðunni. Ég hef beinlínis gert tilraunir í þessa veru. Ég sendi tvö leikrit í útvarpið, annað nær eingöngu með karlmönnum, það var strax tekið og flutt fljótlega. Síðan sendi ég annað, þar sem var nánast jafnt á komið með kynin, það var tekið reyndar og flutt síðar. Í fyrra tóku ágætar konur stykki eftir mig inn á menningarnótt, þar voru aðeins tveir karlmenn, annar að vísu draugur! Nú nú, ég sendi stóru leikhúsi grind að verki með þrem konum á þeim aldri, þar sem leikkonur segja minnst um kvenhlutverk. Ráðamönnum fannst hugmyndin góð en höfnuðu henni samt strax, þetta hentaði ekki. Ég hef undanfarið gengið milli manna með stykki um sama efni og það örlitla, sem ég sendi í þessa keppni. Leikhúsfólk, sem ég hef borið það undir, segja það gott og vel skrifað, en því er hafnað. Mér dettur ekki í hug neitt "samsæri" og síst gagnvart meinleysingja eins og mér, það hlýtur því að vera efnið, efnistökin, hlutverkaskipanin, sem ekki "hentar". Getur verið, að þrátt fyrir öll fögru orðin, eigi konan enn að vera annað hvort dúlla eða píka? Jú, mér er ljóst, að ég einfalda gróft, og tilraun mín svo sem ekki marktæk ein og sér, eða hvað?
E.t.v. er líklegri sú dapurlega niðurstaða, að leikhúss- og bókmenntafólk sé einfaldlega skíthrætt við allt alvöruróttækt, svo sem hefur verið yfirþyrmandi í þessu "lýðræðisþjóffélagi". Meinlitlir orðaleikir eru vissulega í lagi og smáupphrópanir, ef ekki er hróflað við kerfinu, en gætið að: Það var líka í lagi í Sovét og nú í USA og mörgum slíkum gervilýðræðisríkjum. Og helbláa höndin fræga er í raun óþörf, þetta er komið inn í gen hvers manns, amk. heilafrumurnar. Ég hef alltaf verið andófsmaður gegn misrétti og kúgun hvers konar og hvort sem henni stjórna peningar eins og hér eða e-ð annað, en ég get vel ímyndað mér, að sæl öryggiskennd fylgi litla gráa ósýnilega karlinum, sem sestur er að í hjartanu, nú eða heilanum hjá þeim sem hann hafa, og strikar sjálfkrafa út með litlausum tússpenna allt sem ekki er alveg óhætt að láta sjást og heyrast. Jú, komi það frá útlöndum, þýdd verk pólitískra og heimsfrægra, þá má sýna það og prenta. En ef ég eða einhver minn líki skrifaði verk lík verkum þeirra, jafnvel þótt bráðfyndin væru eins og verk Darios Fo, þá myndu þau ekki "henta" eða ekki vera nógu vel "skrifuð"! Nei, íslensk skáld hafa helst ekki mátt meina neitt, ekki trúa á neitt eða a.m.k. ekki taka ábyrgð á neinu, í besta falli gagnrýna á yfirborðinu með orðaleikjum, einhverjum helvítis "húmor", eins og einn forleggjarinn sagði mér að gera við eina mína ádeilu.
Í litla leikhúsheiminum hér má heldur hvorki hugsa hátt né djúpt, svo sem eins og þegar stórvirki og eitt mesta íslenska leikverkið, 13. krossferð Odds Björnssonar, sem þó var sett á svið, var bókstaflega jarðað af einum þessara sjálfskipuðu "bókmenntafræðinga". Þar var að vísu ekki leikhúsfólkinu um að kenna, en síðan hefur það víst ekki þorað að hleypa á fjalirnar neinu sambærilegu.
Já, ég veit, ekki nógu vel skrifað, hentar ekki, það er svarið. Það vill bara svo til, að ég er að vísu ekki mjög reyndur leikritahöfundur en hef þó a.m.k. menntun til að vera "fræðingur" ekki síður en flestir þeir sem ríkja á þeim vettvangi, ég hef nefnilega háskólapppíra upp á nám í bókmenntum á þrem þjóðtungum, þótt það þurfi auðvitað ekki að segja mikið. Og svo var slíkt líka sagt um HKL og marga þekkta, og vafalaust miklu fleiri óþekkta hæfileikamenn, sem litlu hræddu kútarnir í ráðastólunum drápu í þögn. Það væri vissulega heiður að vera þó ekki nema kandídat í þeim hópi.
Nú vil ég venda mínu kvæði í smákeng og taka létta disputatio við sjálfan mig. Aldrei höfum við átt jafnstóran og glæsilegan og velmenntaðan og þjálfaðan hóp leiklistarmanna og nú. Þeir (menn = karlar og konur!) eru að vinna mörg og góð verk. Fáránlegt væri að halda fram, að þorri þeirra telji sig þurfa að skrifa einhvers konar andófsverk, enda leiðir sjaldnast gott af þvingun. En, og aftur en, þegar enginn virðist finna sig knúinn til þess nú, á þessum tímum hins hverfanda hvels (svo sem allir tímar eru reyndar, hverfast þó mishratt), þá er eitthvað að. Ég þykist sjá og heyra, að margir hafi það svona bak við annað eða bæði eyru, að best sé að vera ekkert með eitthvað "róttækt", betra að nýta hæfileikana og kunnáttuna þar sem minni hætta sé á árekstrum, túlka einstaklinginn í sjálfum sér, skoða fjölskylduna betur, og naflann, annars yrði kannski erfiðara um útgáfu, um styrki, um aðsókn, um viðurkenningu. Já, best að hugsa bara ekkert um það. Ég ráfa vissulega um í sömu þokunni og hinir, en trúlegt þykir mér, að stykki mitt hafi ekki verið lagt til hliðar af því að það sé illa skrifað eða óleikrænt, nei, frekar var það "boðskapurinn", sem reið baggamuninn.
Mig langar margt og meðal annars að skjóta inn spurningu til skálda, ekki síst ungra leikskálda. Hvernig stendur á því, að það eru fyrst og fremst róttæk verk, sem lifa, einhvers konar andófsverk, félagsádeiluverk, já beinlínis byltingarverk á einhverju sviði? Höfundar eins og Shakespeare, Shaw, Ibsen, Brecht, eða Zola, Tolstoj, Steinbeck, Fo, Laxness t.d., svo ég víkki hringinn aðeins? Og hvern sjálfan flekkóttan og röndóttan andskotann voru þessir að meina, fyrst þjóðfélagsleg verk eru par definitonem svona léleg? Jú, útlenda andófsmenn má reyndar sýna, t.d. Havel, en íslenska, nei takk! Ólafur Haukur? Já, og þó ekki í seinni tíð, er það? Ég er ekki bara að tala um "pólitík" og alls ekki hráa pólitík, sem oftast er vondur kveðskapur. Ég er að tala um viðhorf eins og t.d. þann snubbótta dóm, sem ég fékk hjá annars ágætri bókmenntablaðakonu um "heiðnu" ljóðin mín fyrir tveim árum: "Ég er ekki hrifin af þessum ljóðum." Og bætti við og glotti pent: "Já, boðskapnum."
Jæja, þessi umræða getur svo sem leitt í ýmsar áttir og best að staldra við hér. Bara leiðinlegt, ef ungt leikhúsfólk skyldi vera lítið og hrætt meðan það hefur þrekið til að vinna róttækt, og þá meina ég auðvitað ekki bara "flokksróttækt", og pota okkur með list sinni áfram veginn til betra og opnara samfélags. Ekki veitti nú af. Eða til hvers forbannaðs fjandans erum við annars að þessu basli? Hætt við að slíkt fólk verði ekki skemmtilegt gamalt: Mosagróin kerfisklessa í vegi allra framfara?
Af mikilli vinsemd, já, eiginlega kátínu,
Eyvindur P. Eiríksson