Mein Kampf eftir George Tabori verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins þann 23. september. Gísli Rúnar Jónsson þýddi verkið en leikstjórn er í höndum Hafliða Arngrímssonar

Verkið er hárbeittur og meinfyndinn gamanleikur um sambýli gyðingsins Slómó og Adolfs Hitlers er sá síðarnefndi kemur úr sveitinni til Vínarborgar í þeim erindagjörðum að nema málaralist við Listaakademíuna þar í borg. Höfnun inntökunefndar er alger. Áfallið reynist Hitler andleg ofraun og við tekur ótrúleg saga vináttu og ástar þar sem gyðingurinn gengur hinum unga, óharðnaða og heimska utanbæjarlepp í móðurstað og kveikir hjá honum hugmyndir um pólitískan frama.
Þegar Slómó áttar sig loks á hrikalegri tortímingaráráttu Hitlers er það of seint því að þessi Hitler er ekki lengur einn. Svört kómedía eftir George Tabori, eitt merkasta leikskáld síðustu aldar.
Bergur Þór Ingólfsson fer með hlutverk Hitlers, aðrir leikarar eru Þór Tulinius, Guðmundur Ólafsson, Marta Nordal, Hanna María Karlsdóttir og Björn Ingi Hilmarsson.
Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd og búninga, lýsing er í höndum  Lárusar Björnssonar. Hljóðmynd skapaði Sigurvald Ívar Helgason.  
 
meinkampf.pngUm höfundinn
George Tabori er leikskáld, skáld, handritshöfundur, leikstjóri, leikhússtjóri og leikari.  Hann er 92 ára ungverskur gyðingur og er einn af merkustu höfundum sem leikhúsið á í dag.  Hann hefur komið víða við á sinni löngu starfsævi. Hann bjó um nokkurt skeið í Bretlandi, en hann er breskur ríkisborgari. Þangað flúði hann frá Þýskalandi á þriðja áratug síðustu aldar. “ Berlín er ekki nógu stór fyrir okkur báða” sagði hann og átti hann þar við sig og Hitler.  Hann vann um árabil sem blaðamaður í London en fyrsta skáldsagan hans kom út 1941. Hún hét “Beneath the Stone” og vakti þónokkurn styr og umtal en aðalpersóna hennar er þýskur höfuðsmaður.
Árið 1945 var Tabori boðin vinna í Hollywood við að skrifa kvikmyndahandrit meðal annars fyrir Alfred Hitchcock. Í Hollywood kynntist hann Bertolt Brecht. Kynnin af Brecht höfðu afgerandi áhrif á Tabori, en hann kynti undir ævilangri ást Taboris á leikhúsinu.  Hann þýddi nokkur verka Brechts og bar ómæda virðingu fyrir honum. Í Hollywood kynntist hann einnig leikurum á borð við Montgomery Clift og Marilyn Monroe og í gegnum þau kviknaði áhuginn á list leikarans. Hann skráði sig í leikaranám við hið fræga “Actor Studio” í New York undir stjórn Lee Strasberg og sökkti sér á kaf í sálfræði.
Það má segja að með leikaranáminu hafi bæst við sálfræðileg vídd í skrif hans sem áður áttu helst rót sína í sögulegu og pólitískum grunni. Hann skrifaði fjölda verka og hróður hans óx í Bandaríkjunum og verk hans voru flutt í stærstu leikhúsunum með virtustu listamönnunum. Hann lenti undir smásjá í McCarthy nornaveiðunum vegna pólitískra skrifa en stóð af sér þrýsting og þröngsýni tímabilsins. Hann  bjó í Bandaríkjunum í 20 ár.
Honum var boðið að leikstýra verki sínu “The Cannibals” (Mannæturnar) í Berlín árið 1970. Sýningin var rómuð fyrir djarfleika og ögrun og varð til þess að skapa Tabori verðugan sess í þýsku menningarlífi. Tabori settist að í Þýskalandi en  þar hefur hann skrifað fyrir leikhús, sjónvarp og útvarp. Árið 1975 tók hann við leikhússtjórastöðu í Bremen Theatre Laboratory sem hefur framleitt leiksýningar jafnt í Þýskalandi og Austurríki.
Hann er margverðlaunaður sem leikskáld og hefur jafnað þótt ögrandi, pólitískur en umfram allt vandaður leikhúsmaður. Hann hlaut á dögunum þýsku leiklistarverðlaunin fyrir ævistarfs sitt.