Í tilefni af yfirstandandi Barnamenningarhátíð boða Leiklistarsamband Íslands og Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2010 til málþingsins Allir á svið?, laugardaginn 24. apríl klukkan 10–14. Málþingið er einhvers konar stefnumót sviðslista- og skólafólks og er í formi nokkurra örstuttra erinda sem öll varpa ljósi á stöðu sviðslista í íslenskum skólum og barnamenningu. Hverju erindi lýkur á spurningu til fundarins. Það verður haldið í Víkinni-Sjóminjasafninu Grandagarði 8  Reykjavík.

Ættu öll íslensk börn að fá tækifæri til að stunda og njóta sviðslista sem hluta af sinni skólagöngu? Er hugsanlegt að aukin áhersla á greinar eins og leiklist og dans geti svarað kalli samtímans eftir fjölbreyttara skólastarfi og áherslu á skapandi og gagnrýna hugsun?

Frummælendur þingsins eru:

– Peter Anderson dansari.
– Pétur Eggerz frá Möguleikhúsinu.
– Soffía Þorsteinsdóttir leikskólastjóri á Sæborg og formaður Faghóps listgreinakennara í leikskólum ásamt Arndísi Gísladóttur kennara.
– Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg.
– Ólafur Guðmundsson leiklistarkennari í Hlíðaskóla og félagi í FLÍSS (Félagi um leiklist í skólum).
– Vigdís Jakobsdóttir frá Fræðsludeild Þjóðleikhússins.

Þátttakendur málþingsins ræða spurningar frummælenda í litlum hópum og gera í kjölfarið sameiginlegar tillögur að vegvísum til framtíðar. Leiklistarsambandið mun að málþingi loknu koma þessum vegvísum til þeirra aðila sem geta haft áhrif.

Mögulegt verður að kaupa súpu og kaffiveitingar á vægu verði á staðnum.

{mos_fb_discuss:2}