Opið málþing um einhverfuróf á Stóra sviðinu
Haldið í tilefni af Alþjóðlegum degi einhverfu (2. apríl) og í tengslum við sýninguna Furðulegt háttalag hunds um nótt
Fjórir fyrirlestrar – Dr. Evald Sæmundsen, Jarþrúður Þórhallsdóttir, Laufey I. Gunnarsdóttir og Ingibjörg Elsa Björnsdóttir og pallborðsumræður að þeim loknum
Umræður um kvöldið í kjölfar sýningará Furðulegu háttalagi hunds um nótt með aðstandendum verksins
Næstkomandi laugardag kl 17 standa Einhverfusamtökin og Borgarleikhúsið fyrir málþingi um einhverfu á Stóra sviðinu. Málþingið er haldið í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfu (sem er 2. apríl) og í tengslum við sýninguna Furðulegt háttalag hunds um nótt sem fjallar um einstakan dreng. Málþingið er öllum opið. Fjórir valinkunnir fyrirlesarar flytja erindi – Dr. Evald Sæmundsen sviðsstjóri rannsókna á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, Jarþrúður Þórhallsdóttir fötlunarfræðingur og höfundur bókarinnar „Önnur skynjun – ólík veröld“, Laufey I. Gunnarsdóttir þroskaþjálfi og einhverfuráðgjafi og Ingibjörg Elsa Björnsdóttir doktorsnemi í þýðingafræði. Fundarstjóri er Torfi Markússon. Að loknum fyrirlestrum verða pallborðsumræður þar sem fyrirlesarar og fólk á einhverfurófi situr fyrir svörum. Málþingsgestir eru hvattir til að tryggja sér miða á Furðulegt háttalag hunds um nótt þetta laugardagskvöld en hluti af ágóða þeirrar sýningar rennur til Einhverfusamtakanna. Efnt verður til umræðna með aðstandendum sýningar að henni lokinni um kl 22. Léttar veitingar í forsal Borgarleikhússins að loknu málþingi. Allur ágóði af veitingasölu rennur óskertur til Einhverfusamtakanna. Íslandsbanki er máttarstólpi sýningarinnar Furðulegt háttalag hunds um nótt og styður einnig við málþingið.
Dagskrá málþingsins:
17:00 – Setning
Torfi Markússon fundarstjóri setur málþingið
17:05 – Breytt landslag einhverfunnar
Dr. Evald Sæmundsen, sviðsstjóri rannsókna á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
17:20 – Heyrirðu ekki í rafmagninu?
Jarþrúður Þórhallsdóttir fötlunarfræðingur og höfundur bókarinnar Önnur skynjun – ólík veröld.
17:35 – Frásagnir einhverfra Laufey I. Gunnarsdóttir, þroskaþjálfi og einhverfuráðgjafi, MA í menntunarfræðum
17:50 – Að vera á einhverfurófi og eignast fjölskyldu
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir doktorsnemi í þýðingafræði
Pallborðsumræður að erindum loknum þar sem fyrirlesarar og einstaklingar á einhverfurófi sitja fyrir svörum
Umræður í kjölfar sýningarinnar Furðulegt háttalag hunds um nótt með aðstandendum verksins – um kl 22:00
Um Einhverfusamtökin
Einhverfusamtökin (áður Umsjónarfélag einhverfra) voru stofnuð 1977. Í samtökunum er fólk á einhverfurófi, foreldrar, fagfólk og aðrir sem áhuga hafa á að beita sér fyrir bættri þjónustu við einhverfa. Félagsmenn eru nú um 780. Félagið hefur lagt áherslu á fræðslu- og kynningarstarfsemi, gefur út fræðsluefni og er vettvangur fyrir gagnkvæman stuðning aðstandenda einhverfra, enda er mjög mikilvægt að hittast, bera saman bækur sínar og veita hvert öðru stuðning.Starfandi eru stuðningshópar fyrir fullorðna á einhverfurófi og einnig frístundahópar fyrir unglinga. Heimasíða félagsins er www.einhverfa.is
Um sýninguna
Furðulegt háttalag hunds um nótt Verkið er í senn spennandi morðsaga og þroskasaga ungs drengs á jaðri samfélags – sérstakt, hlýlegt og fyndið og lætur engan ósnortinn.Leikrit Simon Stephens byggir á samnefndri skáldsögu Mark Haddon. Bókin vakti mikla athygli þegar hún kom út og hlaut öll helstu bókmenntaverðlaun þess árs.
Furðulegt háttalag hunds um nótt var ótvíræður sigurvegari sviðslistaverðlauna Breta, Olivier Awards í ár. Þar hlaut sýningin alls sjö verðlaun, þ.á.m. sem besta sýningin og besta leikritið. Engin sýning hefur áður hlotið fleiri verðlaun á þeirri hátið enda nýtur hún gríðarlegrar hylli í London og er enn sýnd fyrir smekkfullu húsi.
Listrænir stjórnendur sýningarinnar unnu mikið saman á gullaldarárum Hafnarfjarðarleikhússins en þeim bætist nú liðsauki í Lee Proud, danshöfundinum frábæra sem stýrði einstökum dansatriðum Mary Poppins í fyrra.
„Þorvaldur Davíð er fantagóður og heillandi…“ – HA, DV
„Fimm stjörnu leikhúsveisla…alvöru leikhús,… gríðarlega vel skrifað, aðalleikarar
fara á kostum og tæknivinnan er listaverk…“ – BL, pressan.is
„Sterk og áhrifamikil sýning, fantavel leikin og mikið leikhús“ – SA, tmm.is
„Einstök sýning um einstakan dreng“ – BÍS, Séð og Heyrt
„…ótrúlega flott á allan hátt… ég var eiginlega agndofa.“ JAB, Viðskiptablaðið
„Konfekt fyrir augað þessi sýning… snilldarlega gert” – LP, Rás 2
„Sjónræn og vel gerð sýning…“ – JBG, Fbl
Aðstandendur: Höfundur: Simon Stephens | Leikstjórn: Hilmar Jónsson | Þýðing: Guðrún Vilmundardóttir | Leikmynd:Finnur Arnar Arnarsson | Búningar: Þórunn María Jónsdóttir | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson|Tónlist: Frank Þórir Hall| Titillag: Ásgeir Trausti| Hljóð: Thorbjoern Knudsen | Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir | Danshöfundur: Lee Proud |Myndband: Petr Hloušek
Leikarar: Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Bergur Þór Ingólfsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Jóhann Sigurðarson, Arnar Dan Kristjánsson, Sigurður Þór Óskarsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Álfrún Helga Örnólfsdóttir