Magnus Maria er ný, norræn ópera eftir Karólínu Eiríksdóttur við líbrettó Katarinu Gäddnäs. Óperan fjallar um mannréttindi, réttindi kvenna til að velja sér starf og fá sömu laun og karlmenn, rétt samkynhneigðra og kynskiptinga og hefur sterka skírskotun í dag. Sýnd í kl. 20.00 kvöld, 3. júní, í Þjóðleikhúsinu. Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík.
Maria Johansdotter er hugrökk stúlka, ákveðin í að lifa lífi sínu sem sjálfstæð persóna og tónlistarmaður. Hún fylgir hjarta sínu og tekur afleiðingum gjörða sinna stolt. Þegar hún er ákærð fyrir að villa á sér heimildir, spyr dómarinn hana hvort hún sé meiri kona eða maður. Hún svarar því til að hún sé bæði kona og maður, en þó frekar maður.
Í dag, meira en þrjú hundruð árum eftir þessa atburði, er tímabært að segja hina ótrúlegu en þó sönnu sögu hinnar 19 ára gömlu Mariu Johansdotter/Magnus Johansson. Lífshlaup hennar hófst á seinni hluta 17. aldar í Föglö á Álandseyjum og endaði nokkrum áratugum síðar í Stokkhólmi.
Hljómsveitarstjórn er í höndum Anna-Maria Helsing sem nýverið stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands (sú fimmta í röðinni af kvenstjórnendum) og leikstjóri er Suzanne Osten, sem er einn af þekktustu og framsæknustu leikstjórum Svíþjóðar. Er hún þekkt fyrir að umturna þeim verkum er hún leikstýrir og setja þau fram á nýstárlegan og spennandi hátt. Magnus Maria var heimsfrumflutt á Álandseyjum árið 2014 og í kjölfarið í Jakobstad í Finnlandi, Folkoperan í Stokkhólmi og í Borgarleikhúsinu í Espoo í Finnlandi. Vorið 2015 verður hún sýnd í Þjóðaróperunni í Osló og í Ystads Teater í Svíþjóð.
Ásgerður Júníusdóttir fer með eitt af hlutverkunum, en önnur hlutverk eru í höndum Hillevi Berg Niska, Lisa Fornhammar, Maria Johansson, Therese Karlsson, Annika Sjölund og Frida Josefin Österberg ásamt leikkonunni Andrea Björkholm.
Dramatúrg er Ann-Sofie Bárány. Leikmynd er hönnuð af Maria Antman og lýsing af Mari Agge. Búningahönnuður óperunnar er sænski fatahönnuðurinn Minna Palmqvist.
„Óperupartítúr Karólínu Eiríksdóttur er nautn, skarpur og formið vel útfært og virkar á sviði. Tjáningarfullur módernisminn er aðgengilegur og snertir áheyrendann á djúpan hátt.“ – Svenska Dagbladet, 2014
„Sýningin er uppfull af óþreytandi fantasíu og spurningum [Suzanne] Ostens.“ – Svenska Dagbladet, 2014
„Brennandi samtímaópera á Álandseyjum. Magnus-Maria skilur áheyrendur eftir uppstokkaða en ánægða. Sjaldan upplifir maður nýskrifaða óperu, þar sem efniviðurinn á eins brýnt erindi við nútímann.“ – Hufvudstadsbladet (Helsinki), 2014
Óperan er flutt á sænsku með texta. Er hún um 75 mínútur að lengd.