Magnús Geir Þórðarson hefur verið ráðinn í stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur var einróma í vali sínu á næsta leikhússtjóra. Inga Jóna Þórðardóttir, formaður stjórnar LR, tilkynnti um ráðninguna á fundi með starfsfólki Borgarleikhússins í hádeginu í dag. Ráðið er í stöðu Borgarleikhússtjóra til fjögurra ára í senn en Guðjón Pedersen, sem gegnt hefur starfinu síðustu átta ár, lætur af störfum í lok þessa leikárs.

Magnús Geir nam leikstjórn við The Bristol Old Vic Theatre School, er master í leikhúsfræðum frá The University of Wales, og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur leikstýrt fjölda leiksýninga. Meðal uppsetninga hans eru Stone Free í Borgarleikhúsinu, Veðmálið, Hedwig og Eldað með Elvis í Loftkastalanum, Stars in the Morning Sky í Edinborg og Vicious Circle í Bristol og London. Magnús Geir var leikhússtjóri Leikfélags Íslands um fimm ára skeið. Meðal sýninga sem hann leikstýrði fyrir félagið í Iðnó voru Stjörnur á morgunhimni, Rommí, Leitum að ungri stúlku, Þúsund eyja sósa og Rúm fyrir einn. Þá leikstýrði hann óperunum Dídó og Eneas og Krýning Poppeu í Borgarleikhúsinu og Sweeney Todd í Íslensku óperunni. Magnús Geir hefur verið leikhússtjóri LA frá því í apríl 2004.

Hann hefur í leikhússtjóratíð sinni hjá LA leikstýrt Óliver!, Fullkomnu brúðkaupi, Litlu hryllingsbúðinni og Svörtum ketti fyrir LA. Fullkomið brúðkaup er vinsælasta sýning LA frá upphafi. Óliver! hlaut Grímuna árið 2005 sem sýning ársins að mati áhorfenda.

{mos_fb_discuss:3}