Aðalfundur Bandalags Íslenskra leikfélaga, haldinn að Hlíð í Ölfusi 1. maí 2009 samþykkti svohljóðandi ályktun.
Öflug og fjölbreytt starfsemi íslenskra áhugaleikfélaga er sú grasrót sem leiklistarlíf þjóðarinnar sækir næringu sína í. Mikilvægi starfseminnar fyrir blómlega menningu um landið allt verður ekki dregið í efa. Fólk á öllum aldri og úr öllum stéttum og stöðum þjóðfélagsins sækir í leiklistarstarfið farveg fyrir listræna hæfileika sína, vaxa að trú á eigin getu og finna á eigin skinni hvernig einbeitt vinna að sameiginlegu marki skilar árangri.
Á þessum miklu óvissutímum getur starfsemi af þessu tagi skipt sköpum. Aldrei hefur verið mikilvægara að efla sjálfstraust þátttakenda og treysta þá í trú á gildi skapandi samvinnu. Nú sem aldrei fyrr þurfum við að rækta samlíðan okkar og hæfileika til að setja okkur í annarra spor. Skilja sálirnar og samfélagið og sannfærast um möguleika okkar til nýsköpunar og endurreisnar.
Til þessa er leikhúsið eitt sterkasta tækið. Bandalag íslenskra leikfélaga skorar á stjórnvöld að standa vörð um fjárhagsgrundvöll starfsemi áhugaleikfélaganna. Á móti heita leikfélögin því að halda áfram sínu metnaðarfulla starfi, landi og þjóð til gleði og hagsbóta.