Leikfélag Reykjavíkur efnir til málþings undir yfirskriftinni Jóhann Sigurjónsson leikskáld – sígildur eða ekki? í Borgarleikhúsinu laugardaginn 20. febrúar og hefst það kl. 11:00 á Litla sviðinu með leiklestri á leikriti Jóhanns Rung læknir sem gefið var út í Danmörku 1905. Sveinn Einarsson leikstýrir þeim Hilmi Snæ Guðnasyni, Jakobi Þór Einarssyni og Láru Jóhönnu Jónsdóttur. Umræðuefni málþingsins, sem hefst að leiklestri loknum leiklestrinum, er Jóhann Sigurjónsson, leikskáld, og erindi hans við nútímann.
Dagskrá málþingsins hefst á sögulegu yfirliti um ævi og störf Jóhanns sem Jón Viðar Jónsson hefur tekið saman. Síðan kynnir Fern Nevjinsky inntak doktorsritgerðar sinnar, Þrá og ástríða í verkum Jóhanns Sigurjónssonar og andmælandi hennar Sveinn Yngi Egilsson, bókmenntafræðingur ræðir um ritgerðina. Gunnar Eyjólfsson, leikari, ræðir um glímuna við Loft og Jón Atli Jónasson, leikskáld, talar um leikskáldið og hvernig það kemur starfandi leikskáldi fyrir sjónir.
Að lokum verða pallborðsumræður þar sem Dagný Kristjánsdóttir, prófessor, Hrafnhildur Hagalín, leikskáld, Páll Baldvin Baldvinsson, leikhúsfræðingur og Sveinn Einarsson fyrrv. leikhússtjóri og leikstjóri taka þátt. Stjórnandi pallborðsins er Fríða Björk Ingvarsdóttir.
Allir eru velkomnir – Í hléi verður boðið upp á súpu í forsal leikhússins.