Leiksýning Vesturports Hamskiptin verður sýnd í allra síðasta sinn í Þjóðleikhúsinu miðvikudaginn 19. nóvember. Með aðalhlutverk í sýningunni fer Gísli Örn Garðarsson.
Sýningin hefur nú verið sýnd að nýju við frábærar viðtökur í Þjóðleikhúsinu og er um að gera að festa sér miða á þessa mögnuðu sýningu hið allra fyrsta!Hamskiptin eftir Franz Kafka er ein af þekktustu skáldsögum 20. aldarinnar. Leiksýningin er í senn ógnvekjandi og fyndin en í verkinu segir frá sölumanninum Gregor Samsa, sem vaknar upp einn morguninn í líki risavaxinnar bjöllu. Líf hinnar hversdagslegu Samsafjölskyldu breytist á svipstundu í einkennilega martröð.
Hamskiptin er mögnuð leikhúsupplifun þar sem leikmynd Barkar Jónssonar og lýsing Björns Helgasonar skapa einstæðan heim á leiksviðinu, og leikhópurinn fer á kostum undir seiðandi tónlist Nicks Cave og Warrens Ellis.
Leikarar í sýningunni eru Gísli Örn Garðarsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Eggert Þorleifsson, Elva Ósk Ólafsdóttir og Ólafur Egill Egilsson.
Hamskiptin var frumsýnd í London árið 2006 og í kjölfarið í Þjóðleikhúsinu, og hlaut þá Grímuverðlaunin sem leiksýning ársins. Sýningin hefur farið sannkallaða sigurför um heiminn, en meðal viðkomustaða hennar á jarðarkringlunni eru New York, Suður-Kórea, Hong Kong, Kólumbía, Rússland, Spánn, Noregur, Þýskaland og Kanada. Sýningin hefur unnið til ýmissa verðlauna og viðurkenninga, og var meðal annars valin besta gestasýning ársins í Boston og Calgary. Hinn þekkti gagnrýnandi The Guardian, Michael Billington, gaf sýningunni á sínum tíma fullt hús stiga, eða fimm stjörnur.