Leikhópurinn Lotta frumsýnir Ljóta andarungann, glænýtt íslenskt leikrit með söngvum í Elliðaárdalnum  miðvikudaginn 24. maí klukkan 18.00. Þetta er ellefta sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Litaland, Litlu gulu hænuna, Hróa hött, Gilitrutt, Stígvélaða köttinn, Mjallhvíti og dvergana sjö, Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi. Í framhaldinu mun hópurinn ferðast með sýninguna og heimsækja yfir 50 staði víðsvegar um landið.

Höfundur Ljóta andarungans er Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er sjöunda leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið. Textarnir eru eftir Önnu Bergljótu en lögin eiga þær Helga Ragnarsdóttir og Rósa Ásgeirsdóttir.

Eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna er hér um að ræða útgáfu Leikhópsins Lottu á klassísku verki H.C. Andersen um svansungann sem fæddist inn í andafjölskyldu. Að þessu sinni er hann þó ekki einn á ferð heldur er búið að blanda saman fimm þekktum ævintýrum í þetta eina verk. Þau eru auk Ljóta andarungans, Öskubuska, Kiðlingarnir sjö, Hérinn og skjaldbakan og Prinsessan á bauninni. Ljóti andarunginn kynnist öllum þessum persónum og fleirum til þegar hann ferðast um Ævintýraskóginn í leit sinni að ást og virðingu.

Sýningin er bæði fjörug og skemmtileg, hana prýða níu glæný íslensk lög og húmorinn og gleðin eru alls ráðandi. Undirtónninn er þó alvarlegur en með verkinu vill Leikhópurinn Lotta leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við hið ægilega samfélagsmein, einelti.

Miðaverð á sýninguna er 2.300 krónur og ekki þarf að panta miða fyrirfram heldur er alveg nóg að mæta bara á staðinn. Gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu. Öllum þykir jú gaman að eiga mynd af sér með uppáhalds vini sínum úr Ævintýraskóginum.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.leikhopurinnlotta.is og í síma 770-0403.