Leikritið var frumflutt á Seyðisfirði, heimabæ höfundar, árið 2008 og fékk góðar viðtökur. Þetta er því í annað sinn sem verkið er sett á svið. Leikstjóri er Kári Halldór og tónlistarstjóri Stefán Jónsson.
Vegleg afmælisdagskrá
Það verður ekki eingöngu sett á svið leikrit. Á afmælisdaginn sjálfan, þann 24. apríl kemur út veglegt 50 ára afsmælisrit. Sama dag opnar sögusýning á Listasafni Ísafjarðar (Gamla sjúkrahúsinu). Þar verður farið yfir sögu Litla leikklúbbsins á lifandi og skemmtilegan hátt. Sýningin mun standa fram í júní. Daginn eftir eða laugardaginn 25. apríl verður sérstök afmælissýning á „Kallarðu þetta leikrit?!“ og um kvöldið munu gamlir sem nýir LL félagar hittast og rifja upp góðar stundir með Leikklúbbnum, því von er á að brottfluttir félagar geri sér ferð vestur og taki þátt í gleðinni.
Stjórn Litla leikklúbbsins mun svo afhenda Safnahúsinu á Ísafirði upptökur af leiksýningum, myndir, leikskrár, veggspjöld og fleira, til varðveislu.