Kraðak ehf hefur frá júlí 2009 sýnt gamansýningar ætlaðar ferðamönnum á hverju kvöldi á Restaurant Reykjavík við góðar undirtektir. Undanfarnar vikur hafa hins vegar orðið þónokkrar breytingar á sýningunni og leikarahópurinn stækkað. Þá heitir sýningin ekki lengur Let´s talk Local – Reykjavík heldur Let´s talk Iceland.

Let´s Talk Iceland er gamansýning á ensku. Sýningin er einleikur og fjallar um sögu og menningu Íslands frá landnámi til dagsins í dag á gamansaman hátt. Þar hitta gestir víkinga og fara með þeim í ógleymanlegt ferðalag um sögu og menningu Íslands. Gestir taka þátt í nokkrum atriðum sýningarinnar og ef eitthvað er óskýrt er þeim leyfilegt að spyrja hvenær sem er. Víkingarnir þekkja sögu Íslands eins og sitt eigið handarbak en eru um leið afar fyndnir og skemmtilegir.

Frumsýning verður þann 7. febrúar næstkomandi en þar sem nokkrir leikarar koma að verkinu er ánægjulegt að segja frá því að ekki verður um ræða einungis eina frumsýningu heldur verða þær sjö talsins. Sú fyrsta verður þannig 1. febrúar og sú síðasta 13. febrúar.

Sýnt verður áfram á hverju kvöldi klukkan 20:00 á Restaurant Reykjavík frá 1. janúar til 30. nóvember.  Það kostar 2.200 kr. inn en frítt fyrir börn 12 ára og yngri. Sýningin er góð skemmtun bæði fyrir erlenda ferðamenn sem og Íslendinga sem vilja fræðast meira um sögu og menningu Íslands á skemmtilegan og lifandi máta. Um er að ræða klukkutíma langa gamansýningu sem kemur öllum í gott skap ásamt því að fræða áhorfandann. Leikarar sýningarinnar eru allir útskrifaðir frá erlendum leiklistarskólum.

Sjö leikarar skipta á milli sín sýningunum en þau eru:
Einar Aðalsteinsson.
Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson.
Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir.
Sandra Gísladóttir.
Sigríður Björk Baldursdóttir.
Snædís Ingadóttir.
Tinna Þorvalds Önnudóttir.

Höfundur og leikstjóri verksins er Anna Bergljót Thorarensen.

{mos_fb_discuss:2}