Annað hvert ár heldur Alþjóðasamband áhugaleikhúsa (IATA/AITA) leiklistarhátíð samhliða aðalfundi hreyfingarinnar. Í annað hvert skipti er viðburðurinn í Mónakó, en á móti annars staðar í heiminum. Þetta árið verður hátíðin haldin í borginni Masan í Suður-Kóreu. Hér má sjá nánari upplýsingar um hana.
Í annað skiptið í röð á Bandalag íslenskra leikfélaga sýningu á þessari hátíð, en þátttaka íslenskir leikhópar hafa annars verið sjaldséðir á leikistarhátíðum IATA/AITA. Í þetta skipti er það samstarfsverkefni Hugleiks og Leikfélags Kópavogs, Memento Mori, sem verður sýnt á hátíðinni fimmtudaginn 2. ágúst. Einnig fer framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra leikfélaga, Vilborg Valgarðsdóttir, á ráðstefnuna og fundi Norðurlandasambands áhuglaleikfélaga (NAR) og Norður-Evrópska áhugaleikhúsráðsins (NEATA) sem einnig verða haldnir á staðnum á meðan á hátíðinni stendur.
Dagbók sem hópurinn skrifar á hátíðinni má lesa hér.
Memento mori var frumsýnt í Hjáleigunni, húsnæði Leikfélags Kópavogs, í nóvember árið 2004, en hefur síðan verið sýnd á leiklistarhátíðinni Leikum núna á Akureyri 2005 og á leiklistarhátíð NEATA í Færeyjum sumarið 2006. Höfundur verksins er Hrefna Friðriksdóttir og leikstóri er Ágústa Skúladóttir. Í sýningunni leika átta leikarar. Smávægilegar mannabreytingar hefur þurft að gera þar sem ekki hafa allir komist í ferðirnar með hópnum, en nú eru leikarar: Björn Thorarensen, Bylgja Ægisdóttir, Einar Þór Einarsson, Gísli Björn Heimisson, Helgi Róbert Þórisson, Hrefna Friðriksdóttir, Huld Óskarsdóttir, Júlía Hannam og Sigurður H. Pálsson. Alls er það 16 manna hópur sem fer til Kóreu.
Það er ekkert smávegis þrekvirki að koma svo stórum hópi með leikmynd og öllu sem tilheyrir hálfa leið í kringum hnöttinn. En bæði Hugleikur og Leikfélag Kópavogs hafa á undanförnum árum verið dugleg við að sækja hátíðir erlendis og eru því í góðri þjálfun við slíkt. Hópurinn leggur af stað úr landi á morgun, miðvikudag, en hátíðin hefst á föstudag.
Að sögn Sigurðar H. Pálssonar, formanns Hugleiks, hefur undirbúningur gengið vel, þrátt fyrir að fá hafi þurft einn leikara heim frá útlöndum til æfinga og að æfa þurft inn annan nýjan. Fjármögnun ferðarinnar gekk einnig brösuglega framan af, en endar náðu þó nokkurn veginn saman að lokum með góðum styrkjum frá bæði stofnunum og fyrirtækjum svo og með frábærri aðsókn að opnum aðalæfingum á sýningunni sem fram fóru í Möguleikhúsinu í byrjun mánaðarins. Mikil eftirvænting ríkir í hópnum og margir sitja sveittir við að læra nauðsynlegustu frasa á kóreönsku, svo sem: "Er naut eða hundur í þessari kássu?" Hópurinn á von á gleðilegum endurfundum við hópana sem voru frá Noregi og Svíþjóð á NEATA-hátíðinni í Færeyjum í fyrra, báðir með mjög góðar sýningar.
Leiklistarvefurinn óskar Kóreuförum góðrar ferðar.
{mos_fb_discuss:2}