Taktu lagið Lóa er eitt fjölmargra verka Jims Cartwright. Þetta er að mörgu leyti átakanleg saga, og þó þótti mér það galli við handritið hversu miklar upplýsingar um samband persóna á milli eru látnar í té strax í upphafi. Mér hefði þótt betra að fá að sjá samskipti fólks þróast meira í gegnum sýninguna, heldur en að fá skilgreiningar á þeim að svo miklu leyti í gegnum texta strax í kynningu. Þó eru persónur verksins ágætlega teiknaðar og tekst Freyvangsmönnum vel að vinna úr þessum efnivið.

Heilt yfir er sýningin ágætlega heppnuð. Leikarar standa allir fyrir sínu, þó svo að leikstjóri hefði e.t.v. mátt vinna betur úr löngum eintölum. Nokkuð var um að langar einræður yrðu einsleitar þar sem ekki var unnið mikið með áherslubreytingar innan þeirra og lögn sviðshreyfinga stundum óhrein. Leikarar stóðu sig með ágætum, að öðrum ólöstuðum átti María Gunnarsdóttir stjörnuleik sem hin hlédræga Lóa sem blómstraði síðan á sviðinu í söngatriðum. Guðrún Halla Jónsdóttir átti líka mjög góða spretti sem hin drykkfellda móðir hennar.

Ekki skildi ég samt hvað útlitshönnuðir voru að spá. Tímasetning í leikmynd og búningum var sundurleit, leikmynd virtist eiga að gefa tilfinningu fyrir 5. eða 6. áratugnum, en búningar virtust vera samtíningur víða að, jafnvel var 9. áratugnum að bregða fyrir. (Og, hvað var klúbbeigandinn, og aðaltöffari sýningarinnar, að gera í allt of lítilli krumpugallapeysu? Ég bara spyr eins og fávís kona…) Ef gefa átti tilfinningu fyrir tímaleysi hefði þurft að stílfæra meira, í stað þess að tína saman. Eins þótti mér ljósanúmerið í lokin, sem byggt er talsvert upp að í verkinu, vera alltof tilþrifalítið.

Í það heila var þetta ágætis sýning og mjög áhrifarík á köflum þó eitt og annað hefði mátt vinnast betur frá hendi leikstjóra og hönnuða.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir