Jæja, nú er vetur úr bæ (sjöníuþrettán!), frumsýningum allt að því lokið að sinni og tími til að blása úr nös og líta yfir farinn veg. Einhvernveginn er mér orðið tamt að hugsa í listaformi og því ákvað ég að setja saman einn slíkan um þær sýningar sem orkuðu sterkast á mig af þeim sem ég sá í vetur.
Hafa ber í huga að auðvitað sá ég ekki nándar nærri allar sýningar sem frumsýndar voru á leikárinu. Eins var ég þátttakandi í tveimur, sem ég held að ekki sé ofsagt að hefðu báðar ratað inn á listann hefði ég setið í salnum en ekki húkt baksviðs eða uppi á priki að freta í fagott og berja xylófóna. Allavega læt ég listann vaða og hvet um leið aðra til að fylgja fordæminu og gera á sinn hátt upp leikárið eins og það horfir við viðkomandi.
Sýningunum er raðað í tímaröð eftir því hvenær ég sá þær.
Leikfélag Kópavogs: Hinn eini sanni
Ég hef séð þessa sakamálaparódíu Toms Stoppards nokkrum sinnum og aldrei séð hana virka fyrr en í Kópavoginum í haust, þó ég hlægi enn upphátt þegar ég les hana, sem ég geri reglulega. Allt veltur á að reyna ekki að búa til "fynd", heldur lifa sig inn í klisjurnar af alefli. Það var gert hér, á öllum sviðum, í leikmynd, gerfum, búningum, leikmunum og síðast en ekki síst í leikstíl. Útkoman var fyrirsjáanlega frábær hjá Bjarna Guðmarssyni, leikstjóra, og liðsmönnum hans.
Beðið eftir Godot
Það hefði þurft að smala öllum þeim sem halda að Beckett sé leiðinlegur á þessa frábæru uppfærslu Peromeistarans Peter Enquist. Hann og óaðfinnanlegur leikhópurinn skildu fullomlega hinn trúðska grunntón í verkinu (Beckett var mikill Buster Keaton aðdáandi, muniði). Sem gerði sýninguna bæði átakanlega, trúverðuga og aldeilis drepfyndna. Þetta var lagið!
Þjóðleikhúsið: Hver er hræddur við Virginíu Woolf?
Eitt besta leikrit allra tíma fékk eftirminnilega meðferð hjá Kjartani Ragnarssyni og öflugum leikhóp. Aldrei þessu vant verður það líklega píslin Honní sem fær varanlegt heimili í minninu, umfram bæði Georg og Mörtu. Túlkun Ingu Maríu Valdimarsdóttur var ekkert minna en æði. Það dregur ekki úr gleðinni með þessa sterku sýningu að áhugi Kjartans á verkinu endurkviknaði í Leiklistarskóla Bandalagsins þegar unnið var með það á námskeiði hjá honum og Sigríði Margréti.
Herranótt: Milljónamærin snýr aftur
Meðan flest hinna menntaskólafélaganna troða marvaðann í "stjórsjóunum" varðveitir hin fornfræga Herranótt leikhúslega samvisku þeirra og fer náttúrulega vel á því. Þunglamalegt en eitursnjallt leikrit Dürrenmatts er ekkert barnameðfæri, en kannski þurfti galgopaskap unglinganna til að blása í það sviðslífi. Allavega var þetta firnavel gert hjá Herranótt, og þó ekki síst hjá Magnúsi Geir leikstjóra sem virtist geta ausið endalaust úr hugmyndaauðgi við umferðarstjórn og uppátæki.
Fiðlari1Umf. Efling: Fiðlarinn á þakinu
Fjórða uppfærslan sem ég kynnist á þessum meistaralega söngleik, og svei mér ef hún er ekki sú áhrifamesta. Sú innblásna ákvörðun leikstjórans, Arnórs Benónýssonar, að láta Show-elementin lönd og leið og einbeita sér að sögunni og persónunum skila sér margfalt í áhrifum, og er skólabókardæmi um hvernig snúa má veikleikum í styrkleika. Flestir Tevye-ar sem ég hef séð syngja betur en Jón Friðrik, það var betur dansað á Akureyri og flottari hljómsveit í Þjóðleikhúsinu – en samt… Hjartað í verkinu sló fyrir allra augum í Breiðumýri og á endanum er það það sem lifir í minningunni. Glæsilegt.
Leikfélag Reykjavíkur: And Björk, of course…
Þorvaldur Þorsteinsson kíkir ofan í sálar- og siðferðisker nútímaíslendingsins með sinni ísmeygilegu aðferð og varpar því sem hann finnur upp á stóran skerm okkur til hryllingsblandinnar skemmtunar. Ef þetta væri topp-einn-listi stæði þessi eftir. Allt gengur upp; verkið, hópurinn, umgjörðin, leikstjórnin, meira að segja endirinn sem sumir ku hafa hnyklað brúnir yfir. Magnað, maður, magnað.
hann-hópur
Leikfélagið Sýnir: Hann
Stundum eru einu vitrænu viðbrögðin við leiksýningum að gapa eins og hálfviti. Svo var um þessa óvæntu tilraunaperlu Júlíusar Júlíussonar og hans öfluga leikhóps á einþáttungahátíð Bandalagsins á Hallormstað nú í vor. Skipulagður og vel undirbyggður spuni sem leikararnir höfðu gengið lengi með í maganum sprakk út á hárréttu augnabliki, og náði að vera sannur á þann áreynslulausa hátt sem maður sér einna helst í Dogma-myndunum og verkum Mike Leigh. Ógleymanlegt.
Leikfélag Reykjavíkur: Fyrst er að fæðast
Kostuleg blanda af raunsæi, súrrealískum húmor og barnslegri einlægni einkenna þetta leikrit Line Knutzon sem er greinilega spennandi höfundur sem vert er að kynna sér nánar. Sýningin var dásamlega skemmtileg, og flott gerð af Benedikt Erlingssyni og hans fólki á Nýja sviðinu.
Leiklistarskóli Bandalagsins: Tittlingatal
Fyrrnefndur Júlíus Júlíusson er ekki einhamur maður. Hér fékk hann til liðs við sig tvo kynbræður sína og sauð saman hlægilegasta skemmtiatriði síðari tíma og flutti á kvöldvöku Leiklistarskólans. Bókið þá strax fyrir Verslunarmannahelgina og þorrablótin 2003.
Leiklistarskóli Bandalagsins: Jörðin klæðist hvítu á vetrum
Í árlegri afraksturssýningu Leiklistarskóla Bandalagsins er maður orðinn vanur að sjá ótrúlega hluti verða til á ómennskt stuttum tíma. Í ár voru þó öll met slegin, þegar tólf stuttir leikþættir sem skrifaðir voru í skólanum voru sviðsettir á einum og hálfum tíma og náðu allir að lifa. Í heild mikið afrek, en einn stendur uppúr. Einleikur Ylfu Mistar Helgadóttur um litgreiningarkonu með fortíð er innblásinn skáldskapur, flutningur Huldar Óskarsdóttur var magnaður og leikstjórn og rýmishugsun Lindu Maríu Ásgeirsdóttur hárrétt. Ógleymanlegt, jafnvel umfram "það venjulega" í kraftaverkaskólanum.
Þorgeir Tryggvason