Leikritunarsjóðurinn Prologos auglýsir eftir umsóknum vegna fjórðu úthlutunar úr sjóðnum. Umsóknarfrestur er til 14. september, en úthlutað verður í október. Leikritunarsjóðurinn Prologos hefur nú starfað við Þjóðleikhúsið í rúmt ár og er honum ætlað að efla íslenska leikritun og hvetja til nýsköpunar í leikhúsinu. Óhætt er að segja að sjóðurinn hafi boðið leikhúsfólki mikilsverð tækifæri til að vinna að list sinni, en þegar hafa sjö leikskáld og fimm leiksmiðjuverkefni hlotið styrk úr sjóðnum.

 

Úthlutað er úr sjóðnum þrisvar sinnum á hverju leikári en næsti skilafrestur umsókna er 14. september.

Annars vegar er auglýst eftir hugmynd að leikriti. Við umsókn skal leggja fram lýsingu á verkinu á 2 blaðsíðum, 5 síður af leiktexta og stutta ferilskrá höfundar (1 bls.). Höfundur getur hlotið 600.000 kr. styrk til að vinna að handriti.

Hinsvegar er auglýst eftir hugmynd að leiksmiðju- eða tilraunaverkefni. Við umsókn skal leggja fram lýsingu á verkefninu á 2-4 blaðsíðum, lista yfir þátttakendur og stuttar ferilskrár þátttakenda.

Um allar umsóknir gildir að þær þarf að vera hægt að ljósrita og gögn skulu ekki bundin inn. Umsókn má ekki vera lengri en 10 bls. í heild. Nafn, heimilisfang, sími og tölvupóstfang umsækjanda þurfa að fylgja umsókn.

Umsóknir skal senda með tölvupósti á netfangið prologos@leikhusid.is eða í almennum pósti, merktar: Þjóðleikhúsið, Prologos, Lindargötu 7, 101 Reykjavík.

Fagráð sjóðsins fjallar um innsendar umsóknir og mælir með verkefnum, en stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um úthlutun. Í fagráði Prologos sitja Melkorka Tekla Ólafsdóttir, Pétur Gunnarsson og Stefán Jónsson. Í sjóðstjórn sitja Bjarni Ármannsson, Kristbjörg Kjeld og Tinna Gunnlaugsdóttir.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Þjóðleikhússins, leikhusid.is, eða fá með því að senda tölvupóst á prologos@leikhusid.is.