STARFSTÍMI SKÓLANS ER 15. – 23. JÚNÍ 2024 AÐ REYKJASKÓLA Í HRÚTAFIRÐI.

Smella hér til að sækja um!* —  

(*Opnað fyrir skráningu 1. mars kl. 12.00)

 


KVEÐJA FRÁ SKÓLANEFND

Kæru leiklistarvinir!

Það er okkur sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin í Reykjaskóla í sumar þar sem leiklistarskólinn okkar verður settur í tuttugasta og sjöunda sinn. Skólinn blómstrar sem aldrei fyrr og við sjáum fram á mikla sköpun, metnað og gleði í sumar.
Að þessu sinni verða fjögur fjölbreytt námskeið í boði: Ágústa Skúladóttir mætir að nýju og nú með Leiklist I, námskeið fyrir nýliða og styttra komna. Karl Ágúst Úlfsson mun endurnýja kynni sín við skólann og kenna Leikritun I, fyrir þá sem eru að byrja að koma hugmyndum á blað og þá sem vilja endurnýja kynnin við grunninn. Jenný Lára Arnórsdóttir kemur til okkar aftur og kennir Leikstjórn IV sem er fjórði áfangi í framhaldsseríu hennar og systur hennar Völu Fannell í leikstjórn sem hófst 2021. Að þessu sinni verður meiri áhersla lögð á vinnu á gólfi með leikurum. Rúnar Guðbrandsson mætir aftur eftir nokkurt hlé með Sérnámskeið fyrir leikara, þar sem hlaupið verður um víðáttur leiksviðsins og snert á ýmsum leikstílum. Þá bjóðum við 4 höfundum í heimsókn til að skerpa stíl- eða hönnunarvopnið! Við vonum að sem flestir eigi þess kost að koma, nema og njóta.

Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju,
Elli, Jónheiður, Hrefna, Gísli Björn og Guðfinna


LEIKLIST I
Kennari: Ágústa Skúladóttir
Námskeiðsgjald: 113.000 kr.

Námskeiðið er grunnnámskeið fyrir leikara og þeir ganga fyrir sem ekki hafa sótt Leiklist I. Næsta sumar verður haldið framhaldsnámskeið sem byggir á þessu námskeiði.

Á námskeiðinu verður farið í grunnatriði í list leikarans. Lögð verður áhersla á að leysa úr viðjum frumorku, einlægni og sköpunargleði, samband leikarans við sjálfan sig, meðleikara og áhorfendur. Unnið verður með líkamsbeitingu og texta og einnig verður kíkt á mismunandi leikaðferðir eða leikstíla eins og t.d. gleðileik, dramatík, Bouffon og melódrama..
Nemendur munu takast á við agann sem þarf að vera til staðar í stórum, stílfærðum hópsenum en einnig verður farið í spuna í smærri hópum, tvíleik og stuttum einleikjum. Mikilvægi liðsheildar hóps verður ríkjandi þáttur námskeiðsins því þegar hlustun og leikgleði ráða ríkjum getur allt gerst!
Mottó námskeiðsins: Einn fyrir alla – allir fyrir einn!!

Ágústa Skúladóttir er einn reyndasti leikstjóri landsins. Leikstjórnarverkefni hennar með atvinnu- og áhugafólki eru orðin um það bil 70 talsins á undanförnum 20 árum og spanna allt frá litlum brúðusýningum upp í stórar óperur, frá einleikjum til grímusýninga án orða og mannmargra söngleikja. Sem leikstjóri hefur hún einnig unnið fjölda leiksmiðjuverka, þar sem sýning verður til úr grunnhugmynd í samvinnu leikhóps og listrænna stjórnenda. Í því sambandi má nefna Grimms með Leikfélagi Kópavogs, Klaufa og kóngsdætur í Þjóðleikhúsinu, Ævintýri Munchásens í Gaflaraleikhúsinu og Gosa – ævintýri spýtustráks í Borgarleikhúsinu. Á síðustu árum hefur Ágústa sett upp sýningar eins og Kardemommubæinn í Þjóðleikhúsi, Njálu á hundavaði í Borgarleikhúsi, Bíddu bara í Gaflaraleikhúsinu, heilgrímusýninguna Hetju! og kveðjusýningu Karls Ágústs Fíflið Tjarnarbíói. Hún er einnig leikstjóri uppistandssýningarinnar Madame Tourette og Hvað sem þið viljið eftir Shakespeare í Þjóðleikhúsinu, Gilitrutt með leikhópnum Lottu og Hollvættir á heiðinni sem sýnt var í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

 

 


LEIKRITUN I
Kennari: Karl Ágúst Úlfsson
Námskeiðsgjald: 113.000 kr.

Námskeiðið er ætlað öllum sem áhuga hafa á að spreyta sig við leiktextasmíð, jafnt algerum byrjendum og þeim sem einhverja reynslu hafa.

Kynntir verða helstu þættir klassískrar leikbyggingar og dæmi skoðuð. Sköpunarferlið verður í brennidepli og hugað að því hvað hvetur sköpunina og hvað letur hana.
Í gegnum nokkrar æfngar skoðum við grunneiningar leikritsins – upphaf, miðju og endi, kynnum okkur persónusköpun, söguþráð og samtöl.
Unnið verður með stutt verk, sem þó uppfylla öll skilyrði leiksögunnar, og stefnt er að því að lokaverkefni hvers nemanda verði tilbúið til meðhöndlunar leikara og leikstjóra.

 

Karl Ágúst Úlfsson hefur starfað sem leikari, leikstjóri, þýðandi og höfundur í ríflega fjörutíu ár. Sem leikari er hann etv. þekktastur fyrir leik sinn í Lífmyndunum, en einnig í þeim óteljandi þáttum sem Spaugstofan sendi út á RÚV og Stöð 2, en hann var einnig handritshöfundur þeirra þátta. Sem þýðandi hefur hann þýtt vel yfir fimmtíu leikrit eftir höfunda eins og Shakespeare, Ibsen, John Ford, Tennesee Williams, Mrozek, Fassbinder og fleiri en einnig söngleiki eins og Galdrakarlinn í Oz, Saga úr vesturbænum, Rent, Kabarett og Billy Elliot. Uppsett leikverk eftir Karl eru á milli tuttugu og þrjátíu, skrifuð fyrir svið, útvarp og sjónvarp en hann hefur einnig ritað kvikmyndahandrit. Af verkum hans má nefna  til dæmis Í hvítu myrkri, Fagra veröld, Örfá sæti laus, Gosi, Gulleyjan, Ó þessi þjóð, Harrý og Heimir, Í skugga Sveins. Gallsteinar afa Gissa og Fíflið.

 

 


LEIKSTJÓRN IV
Kennari: Jenný Lára Arnórsdóttir
Námskeiðsgjald: 113.000 kr.

Forkröfur: Þeir ganga fyrir sem sótt hafa Leikstjórn I, II og III. Umsækjendur með leikstjórnarreynslu koma til greina ef laus pláss eru.

Á námskeiðinu fá leikstjórar tækifæri til að vinna með allt sem þeir hafa lært á fyrri námskeiðum. Nemendur velja sér stuttverk eða senu að eigin vali og nýta allt sem þau hafa lært varðandi rannsóknarvinnu, greiningu og umgjörð í þá vinnu. Þá er líka áhersla á vinnu með leikurum á námskeiðinu, en nemendur þurfa að vera tilbúnir til að leika í öðrum verkum. 

Áður en námskeiðið hefst verða nemendur að hafa valið sér verk, gert rannsóknarvinnu, greiningu og hugsað út í umgjörðina. Þá verður búið að kasta í hlutverk innan hópsins þannig að nemendur geti kynnt sér þau verk sem þau leika í.

Í upphafi námskeiðs verður farið yfir verkin og vinnuna sem leikstjórinn hefur nú þegar gert og rætt um ákvarðanir og listræna sýn. Þá hefjast æfingar þar sem áherslan verður á vinnuna á milli leikstjóra og leikara, enda er það mikilvægasta sambandið í uppfærslunni. Þá verður unnið að því að finna styrkleika og veikleika hvers og eins og hvernig megi vinna með þá eiginleika. Því er þetta tækifæri fyrir leikstjórann að kynnast sjálfum sér vel. Umræður verða reglulega og mun kennari auk þess gefa reglulega endurgjöf sem nýtist leikstjóranum í sinni vinnu.

Jenný Lára Arnórsdóttir útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá KADA í London árið 2012. Eftir heimkomu stofnaði hún leikhópinn Artik og hefur undir honum leikstýrt sýningunum Hinn fullkomni jafningi, Elska – ástarsögur Þingeyinga og Skjaldmeyjar hafsins, en þær tvær síðarnefndu vann hún upp úr viðtölum sem hún tók og notaðist svo við svo kallaða Verbatim-aðferð til að setja þau saman í handrit. Bæði verkin voru sett upp í samstarfi við Leikfélag Akureyrar.

Árið 2015 fluttist Jenný svo til Akureyrar þar sem hún, ásamt fleirum, stofnaði leikhópinn Umskiptinga sem hefur hlotið mikið lof fyrir sýningar sínar, en hópurinn hefur fengið tvær tilnefningar til Grímunnar – árið 2017 sem Sproti ársins og aftur árið 2019 sem Barnasýning ársins fyrir verkið Galdragáttin og þjóðasagan sem gleymdist. Haustið 2021 setti  hópurinn upp tvo einleiki undir nafninu Í myrkri eru allir kettir gráir og leikstýrði Jenný báðum verkunum. Þá hélt hópurinn áfram með annan einleikinn, Líf, og sýndi hann á Reykjavik Fringe Festival 2022 og hjá Leikfélagi Akureyrar sama haust. Þá er hún hugmyndasmiður nýjasta verkefnis Umskiptinga, Töfrabækurnar, sem er sería stuttra brúðusýninga sem eru unnar upp úr þjóðsögum víðs vegar úr heiminum. Leikstýrði hún fyrsta verkinu, Sagan af Gýpu og framleiddi það næsta, Fóa og Fóa Feykirófa.

Leikárið 2023-2024 leikstýrði Jenný Lára Arnórsdóttir barnaverkinu Litla skrímslið og stóra skrímslið eftir Áslaugu Jónsdóttur hjá Leikfélagi Akureyrar sem var sýnd 24 sinnum fyrir fullu húsi.

Jenný Lára tók við starfi skólastjóra Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar haustið 2022 og er þar að byggja upp faglegt nám fyrir börn og ungmenni auk þess sem að stefnt er á að byggja upp fræðslustarf fyrir Leikfélag Akureyrar. Haustið 2023 tók hún við kennslu í áfanganum Leikstjórinn á sviðslistabraut Menntaskólans á Akureyri ásamt afleysingum í öðrum sviðslistaáföngum.

Jenný hefur þar að auki leikstýrt verkum hjá ýmsum áhugaleikfélögum, skrifað og séð um framleiðslu á ýmsum sviðsverkum.


RunargudSÉRNÁMSKEIÐ FYRIR LEIKARA
Kennari: Rúnar Guðbrandsson
Námskeiðsgjald: 113.000 kr.

Sérnámskeið í leiklist, ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I og II og eða sambærileg grunnnámskeið eða hafa umtalsverða reynslu af sviðsleik.

Á námskeiðinu verða kynntir mismunandi leikstílar og ólíkar aðferðir við að greina og túlka leikverk. Námskeiðið verður að hluta til fræðilegt, en einkum þó verklegt. Þátttakendum verða sendar stuttar senur til að kynna sér (og helst að læra utanað) áður en námskeiðið hefst. Hver dagur hefst síðan á fyrirlestri, fyrirspurnum og umræðum um tiltekinn leikstíl, því næst verður vorksjoppað í nokkra stund, þar sem allur hópurinn vinnur saman með æfingar og hugmyndir tengdar viðkomandi leikstíl.

Seinni partinn vinnur fólk í smærri hópum og pörum með áðurnefndar senur og spreytir sig á að beita þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið. Í lok dagsins verður svo afraksturinn skoðaður og ræddur. Síðustu dagana vinnur svo hver hópur (pör) eina senu í einum tilteknum stíl og flytur hana að lokum fyrir áhorfendur.

Þeir leikstílar sem unnið verður með: Commedia dellarte. Kerfi Stanislavskys (Stanislavskys system) og ameríska metóðan (The American method, t.d. hugmyndir Lee Strassberg, Stellu Adler, Sanford Meisner). Leikstíll Bertolds Brecht (Epíska leikhúsið). Fátæka leikhúsið, (Jerzy Grotowski).… og hugsanlega eitthvað fleira. Auk leikatriðanna munu þátttakendur fá lesefni til fróðleiks og er æskilegt að þátttakendur séu læsir á enska tungu.

Rúnar Guðbrandsson nam upphaflega leiklist í Danmörku og starfaði þar sem leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro, hjá leikhópi Jerzy Grotowskis í Wroclaw í Póllandi, Dario Fo á Ítalíu, Jury Alschitz í Kaupmannahöfn og víðar, og Anatoly Vasiliev í Moskvu. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester á Englandi og hefur lokið fyrri hluta doktorsnáms í fræðunum. Hann hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara víða í Evrópu. Rúnar var fyrsti prófessor í leiktúlkun við Listaháskóla Íslands. Hann hefur rekið leiksmiðjuna Lab Loka síðan 1992, stjórnað þjálfun hópsins og stýrt flestum verkefnum hans hérlendis og erlendis. Árið 2015 stofnaði hann ásamt fleirum Heimilislausa leikhúsið ETHOS sem hefur verið skapandi og valdeflandi vettvangur fyrir ýmsa jaðarsetta hópa. Hann hefur auk þess fengist við ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar. Þetta er í sjöunda sinn sem Rúnar kennir við skólann.

 


HÖFUNDUR Í HEIMSÓKN
Blundar í þér skáld? Ertu með hálfhannað leiksvið í möppu? Ertu að burðast með hugmynd? Dreymir þig um að klæða leikara í búninga? Vantar þig lausa stund til að ljúka sviðsverkinu?
Skólinn býður höfundum í sviðslistum að dvelja að Reykjaskóla við skapandi skrif og nú einnig í skapandi hönnun í sviðslistum. Við teljum að mjög vel hafi tekist til fyrir leikhöfunda og bjóðum nú í fyrsta sinn aðra sviðshöfunda sérstaklega velkomna til að njóta þess að skapa, skrifa og skemmta sér í sönnum leikhúsanda.
Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda.
Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta tækifæri og lofum því að hinn eini sanni skólaandi verði einstök uppspretta sköpunargleði!

 


ALMENNAR UPPLÝSINGAR

Skráning í skólann stendur yfir frá 1. mars til og með 15. apríl. Umsóknir skal fylla út á Leiklistarvefnum, www.leiklist.is. Opnað verður fyrir umsóknir 1. mars. kl. 12.01.

  • Reglan Fyrstur kemur – fyrstur fær gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 40.000, ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Staðfestingargjald dregst frá endanlegu skólagjaldi. Ef velja þarf á milli umsækjenda gerir skólanefnd það á grundvelli fyrri menntunar og reynslu viðkomandi.
    Náist ekki ásættanlegur fjöldi á tiltekið námskeið fellur það niður.
    Aldurstakmark í skólann er 18 ár.
    Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Starfstími skólans á þessu ári er frá 15. til 23. júní. Skólasetning er laugardaginn 15. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Reykjaskóla kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00 en þá er ekki boðið upp á kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 23. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.

Aðstaða í Reykjaskóla:
Svefnherbergin eru búin 2 uppbúnum rúmum, þ.e. koddi, sæng, lak og sængurföt fylgja með og tveimur stólum. Nemendur hafi með sér handklæði og sundföt. Sundlaug, gufubað og heitir pottar eru á staðnum.
Innfalið í skólagjaldi er fullt fæði, þ.e. morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur auk kaffiveitinga tvisvar á dag.
Haldið er lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig upp á, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Skólagjald:

Þátttökugjald á námskeið er 113.000 kr. og gjald fyrir Höfunda í heimsókn er 92.000 kr. Skólagjaldið skal vera að fullu greitt í síðasta lagi 1. júní 2024.
Staðfestingargjald er kr. 40.000. Umsókn er þá fyrst gild að búið sé að greiða staðfestingargjald! Staðfestingargjald er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs.
Skólagjaldið skal vera að fullu greitt í síðasta lagi 1. júní 2024. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.
Staðfestingargjald skal greiða fyrir
 31. mars, að öðrum kosti fellur umsókn niður. Greiða skal til Bandalags ísl. leikfélaga og skal senda tilkynningu á netfangið info@leiklist.is:
Millifærslureikningur er 334-26-5463 – Kt. 440169-0239. Takið skýrt fram ef annar en umsækjandi greiðir! 

 Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann. Þá styrkja mörg stéttarfélög tómstundastarf félagsmanna og fellur Leiklistarskólinn þar undir.

Kennarar skólans og starfsfólk:
Skólastýra — F. Elli Hafliðason , donellione@gmail.com
Skólastýra — Jónheiður Ísleifsdóttir, jonheidur@gmail.com
Leiklist I – Ágústa Skúldóttir, agustaskula@gmail.com
Leikritun I, Karl Ágúst Úlfsson, undur@stormerki.is
Leikstjórn IV — Jenný Lára Arnórsdóttir, jennylaraarnors@gmail.com
Sérnámskeið fyrir leikara — Rúnar Guðbrandsson, labloki@mmedia.is

Hafið samband við Þjónustumiðstöð BÍL ef spurningar eru varðandi skólann eða annað honum tengt:

Bandalag íslenskra leikfélaga, Kleppsmýrarvegi 8, 104 Reykjavík
sími 551 6974, netfang info@leiklist.is, veffang www.leiklist.is