STARFSTÍMI SKÓLANS ER 17. – 25. JÚNÍ 2023 AÐ REYKJASKÓLA Í HRÚTAFIRÐI.

Smella hér til að sækja um! —


KVEÐJA FRÁ SKÓLANEFND

Kæru leiklistarvinir!

Það er okkur sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin í Reykjaskóla í sumar þar sem leiklistarskólinn okkar verður settur í tuttugasta og sjötta sinn. Skólinn blómstar sem aldrei fyrr og við sjáum fram á mikla sköpun, metnað og gleði í sumar.

Að þessu sinni verða þrjú fjölbreytt námskeið í boði. Árni Pétur Guðjónsson mun endurnýja kynni sín við skólann og kenna Leiklist II sem er framhald af Leiklist I sem Ólafur Ásgeirsson kenndi í fyrra. Einnig mætir Jenný Lára Arnórsdóttir til okkar aftur og kennir Leikstjórn III sem er þriðji áfangi í framhaldsseríu hennar og systur hennar Völu Fannell í leikstjórn sem hófst 2021. Við bjóðum svo velkominn í kennarahópinn í fyrsta sinn, Björn Inga Hilmarsson. Hann mun kenna sérnámskeið fyrir leikara undir heitinu Leikarinn sem sögumaður/hljóðfæri (Ex Uno Pluris).
Þá bjóðum við höfundum í heimsókn til að skerpa stílvopnið! Við vonum að sem flestir eigi þess kost að koma, nema og njóta.

Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju, Elli, Jónheiður, Hrefna, Dýrleif og Gísli Björn.


LEIKLIST II
arni petur_vefurKennari er Árni Pétur Guðjónsson
Þátttökugjald: 109.000 kr.

Forkröfur: Leiklist I.
Ef laus pláss eru getur skólanefnd hleypt inn umsækjendum sem eru að hennar mati með nægjanlega menntun eða reynslu.

Námskeiðslýsing:
Leiklist II er grunnnámskeið fyrir leikara, ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I eða eiga að baki sambærilegt nám eða reynslu.
Á námskeiðinu verður aðaláherslan á að kynna sjálfstæð vinnubrögð leikarans við að nálgast hlutverk og flytja það fyrir framan áhorfendur. Nýta sköpunargáfu hvers og eins og finna styrk og veikleika og jafnframt að vinna með það þar til allir verða sáttir. Nemendur mega búast við meiri leikstjórn og gagnrýni á það sem þeir gera en á Leiklist I með það að markmiði að gera þá að betri leikurum. Mikið verður unnið með spuna og myndrænar sviðsetningar. Hér er ekki verið að vinna með útvarpsleik heldur er verið að tala um: Blóð, svita og tár!
Eftir að skráning á námskeið er staðfest, fá nemendur senda leiktexta sem unnið verður með. Kennarinn verður í sambandi við nemendur til að koma þeim af stað með undirbúningsvinnu áður en námskeiðið hefst. svo það nýtist sem allra best.

Árni Pétur Guðjónsson stundaði nám við Ríkisleiklistarskólann í Kaupmannahöfn, við Leiklistarskóla Íslands og er með leiklistarkennaragráðu frá Danmörku. Hann hefur starfað sem leikari og leiklistarkennari um víða veröld, m.a. í Leiklistarskóla íslands og Listdansskólanum.  Hefur starfaði sem leikari frá 1988 og leikið á öllum sviðum atvinnuleikhúsanna gegnum árin. Árni er oft nefndur „Guðfaðir tilraunaleikhússins“ enda verið með í eða staðið fyrir því markverðasta sem komið hefur fram þar td. Vesturport, Lab Loki, Herbergi408.is og í Áhugaleikhúsi atvinnumanna svo eitthvað sé nefnt. Á yfirstandandi leikári, 2022-23, er Árni Pétur með hlutverk í 4 mismunandi leikhúsum. Borgarleikhúsinu í Marat/Sade, LA í Hamingjudögum. Tjarnarbíó í Ég lifi enn og Shakespeare leikhúsinu í Gdansk (Proximity).
Þetta er í fjórða sinn sem Árni Pétur kennir við skólann.


LEIKSTJÓRN III – Framhald af Leikstjórn II
Kennari: Jenný Lára Arnórsdóttir
Þátttökugjald: 109.000 kr.

Forkröfur: Leikstjórn I og II.
Ef laus pláss eru getur skólanefnd hleypt inn umsækjendum sem eru að hennar mati með nægjanlega menntun eða reynslu.

Námskeiðið er framhald af Leikstjórn II sem Jenný Lára kenndi 2022. Þeir ganga fyrir sem sóttu það námskeið eða hafa sótt önnur sambærileg námskeið í leikstjórn.

Á námskeiðinu verður haldið áfram að vinna út frá aðferðum frá fyrri námskeiðum. Áherslan námskeiðsins er að þjálfa nemendur í að vera með skýra listræna sýn fyrir verkefnið, samvinna með listrænum stjórnendum og að vinna með ný leikverk.
Á námskeiðinu munu leikstjórar undirbúa verk út frá smásögum, ævintýrum eða dæmisögum og skoða dramatúrgíska nálgun á nýtt verk. Hvernig verður textinn leikbær og hvaða lausnir eru í boði fyrir leikstjóra til að aðstoða sig við snúnar senur? Æfingar verða gerðar á mismunandi útfærslum á lausnum.
Þá munu leikstjórarnir klára greiningu á þessum verkum og nota það til að vinna hugmyndir fyrir umgjörð verksins. Leikstjórarnir þurfa að undirbúa kynningu á hugmyndunum og fara á “mock”fund með listrænum stjórnendum uppsetningarinnar. Þar munu þeir fá æfingu í að vinna að lausnum í samstarfi við aðra er að uppsetningum koma.
Í lok námskeiðs ætti því að liggja fyrir leikbært handrit með skýrri sýn á listræna stefnu uppsetningarinnar.

Kennarinn
Jenný Lára Arnórsdóttir útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá KADA í London árið 2012. Eftir útskrift vann hún sem aðstoðarleikstjóri við sýninguna Newsrevue hjá Canal Cafe Theatre áður en hún flutti aftur til Íslands í lok árs 2012. Eftir heimkomu stofnaði hún leikhópinn Artik og hefur undir honum leikstýrt sýningunum Hinn fullkomni jafningi, Elska – ástarsögur Þingeyinga og Skjaldmeyjar hafsins, en þær tvær síðarnefndu vann hún upp úr viðtölum sem hún tók og notaðist svo við svo kallaða Verbatim-aðferð til að setja þau saman í handrit. Bæði verkin voru sett upp í samstarfi við Leikfélag Akureyrar.
Árið 2013 setti hún á fót Uppsprettuna sem var röð viðburða þar sem handritshöfundar, leikarar og leikstjórar leiddu saman hesta sína og settu upp stuttverk á einum sólarhring. Sama ár starfaði hún sem aðstoðarmaður leikstjóra við uppsetningu á Jeppa á Fjalli hjá Borgarleikhúsinu. Árið 2014 fékk leikhópurinn InTime Theatre í Færeyjum hana til að leikstýra verkinu Einki orð sem sett var upp í samstarfi við Tjóðpallinn en einnig ferðaðist verkið um eyjarnar.
Árið 2015 fluttist Jenný til Akureyrar þar sem hún, ásamt fleirum, stofnaði leikhópinn Umskiptinga sem hefur hlotið mikið lof fyrir sýningar sínar, en hópurinn hefur fengið tvær tilnefningar til Grímunnar – árið 2017 Sem Sproti ársins og aftur árið 2019 sem Barnasýning ársins fyrir verkið Galdragáttin og þjóðasagan sem gleymdist, en Jenný var hluti af höfundateymi verksins og fór með fjögur hlutverk. Nú síðast setti hópurinn upp tvo einleiki undir nafninu Í myrkri eru allir kettir gráir og leikstýrði Jenný báðum verkunum. Þá hélt hópurinn áfram með annan einleikinn, Líf, og sýndi hann á Reykjavik Fringe Festival 2022 og hjá Leikfélagi Akureyrar sama haust.
Þá tók Jenný við starfi skólastjóra Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar haustið 2022 og er þar að byggja upp faglegt nám fyrir börn og ungmenni auk þess sem að stefnt er á að byggja upp fræðslustarf fyrir Leikfélag Akureyar.
Jenný hefur þar að auki leikstýrt verkum hjá ýmsum áhugaleikfélögum, nú síðast með Gauragangi hjá Leikfélagi Eflingar í vetur, skrifað og séð um framleiðslu á ýmsum sviðsverkum.
Þetta er í annað sinn sem Jenný Lára kennir við skólann.


SÉRNÁMSKEIÐ FYRIR LEIKARA – Ex Uno Plures – Leikarinn sem sögumaður/hljóðfæri
Kennari: Björn Ingi Hilmarsson
Þátttökugjald: 109.000 kr.

Forkröfur: Leiklist I og II eða sambærileg menntun og umtalsverð leikreynsla.
Ef laus pláss eru getur skólanefnd hleypt inn umsækjendum sem eru að hennar mati með nægjanlega menntun eða reynslu.

Sérnámskeið fyrir leikara – Leikarinn sem sögumaður/hljóðfæri (Ex Uno Plures)

Á þessu námskeiði vinnum við m.a. með leikarann sem sögumann/hljóðfæri. Getum við verið mörg “hljóðfæri” á sviðinu sem leikarar. Kannski heil hljómsveit? Hvernig segjum við sögu með mörgum karakterum? Hversu lítið komumst við af með í leikmynd ofl. Við vinnum með leikarann sem býr til allt “sögusviðið/leikmyndina” og “allar” persónur sögunnar með sinni eigin líkamlegu tjáningu/látbragðsleik. Unnið verður með leikritið “Lofthræddi örninn hann Örvar” sem Björn Ingi hefur hvortveggja leikið og leikstýrt í Þjóðleikhúsinu.
Einnig verður unnið með leikrit eftir Anton Chekov þar sem við skoðum nálgun á sannri tilfinningu sem er raunveruleg fyrir þig á sviðinu, þegar þú sem leikari ert að æfa eða sýna og veltum fyrir okkur hvernig við getum hjálpað meðleikurum okkar á sviðinu.

Kennarinn
Björn Ingi útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1990, og hefur því starfað sem leikari í yfir 30 ár Hann vann sem lausráðinn leikari í Þjóðleikhúsinu, fyrstu 6 árin eftir útskrift og lék þar m.a. Lofthrædda örninn hann Örvar í leikstjórn Peter Engkvist. Hann starfaði einnig sem lausráðinn leikari hjá Leikfélagi Akureyrar, í Borgarleikhúsinu og með fjölmörgum öðrum leikhópum.
Árið 2006 var hann fastráðinn við Borgarleikhúsið og starfaði þar í 12 ár. Meðal verkefna hans í Borgarleikhúsinu á þessum tíma eru Sölumaður deyr, Sporvagninn Girnd, Beðið eftir Godot, Kysstu mig Kata, Fjandmaður fólksins, Feður og synir, Jesus Christ Superstar, Þrjár systur og Galdrakarlinn í Oz. Árið 2010 flutti Björn til Stokkhólms og starfaði þar sem leikari í 5 ár við Teater Pero sem er eitt af virtari barna og fjölskylduleikhúsum Svíþjóðar og lék þar yfir 500 sýningar á sænsku auk þess að starfa þar í sjónvarpi.
Árið 2016 hóf Björn störf við barna-og fræðsludeild Þjóðleikhússins, þar leikstýrði hann 5 sýningum m.a. “Lofthræddi örninn hann Örvar”, “Ég get” og “Oddur og Siggi” sem báðar hlutu tilnefningu til Grímuverðlauna. Auk þess sá Björn Ingi um verkefnið Þjóðleik, sem er verkefni sem ætlað er að auka áhuga ungs fólks á landsbyggðinni á leiklist. Á þessum tíma lék hann einnig í fjölmörgum sýningum Þjóðleikhússins m.a. Ronju ræningjadóttur, Sjeikspír verður ástfanginn, Kafbátnum, ofl.
Meðal verkefna sem Björn Ingi hefur leikstýrt eru: Ronja ræningjadóttir (Þjóðleikhúsinu Grænlandi), Frænka Charleys (leikf.Dalvíkur), Macbeth (leikf. M.H.), Stræti (leikf. Kvennaskólans) Stúdentaleikhúsinu, ofl. Á sínum rúmlega 30 ára ferli sem leikari hefur Björn Ingi að auki leikið í fjöldamörgum útvarpsleikritum sjónvarpsmyndum, og kvikmyndum.


Höfundur í heimsókn

Þátttökugjald: 87.000 kr.

Blundar í þér skáld? Ertu að burðast með hugmynd? Áttu hálfskrifað handrit? Vantar þig lausa stund til að ljúka leikritinu?
Skólinn býður höfundum að dvelja að Reykjaskóla við skapandi skrif eins og svo oft áður. Við teljum að mjög vel hafi tekist til og höfundar notið þess að skapa, skrifa og skemmta sér. Það er okkur því sönn ánægja að endurtaka þetta boð.
Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda.
Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta tækifæri og lofum því að hinn eini sanni skólaandi verði einstök uppspretta sköpunargleði!

ALMENNAR UPPLÝSINGAR

Skráning í skólann stendur yfir frá kl. 16.00 þann 10. mars til og með 15. apríl. Umsóknir skal fylla út á Leiklistarvefnum, www.leiklist.is. Opnað verður fyrir umsóknir 10. mars. kl. 16.00.

  • Reglan Fyrstur kemur – fyrstur fær gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 40.000, ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Ef velja þarf á milli umsækjenda gerir skólanefnd það á grundvelli fyrri menntunar og reynslu viðkomandi.
    Náist ekki ásættanlegur fjöldi á tiltekið námskeið fellur það niður.
    Aldurstakmark í skólann er 18 ár.
    Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Starfstími skólans á þessu ári er frá 17. til 25. júní. Skólasetning er laugardaginn 17. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Reykjaskóla kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00 en þá er ekki boðið upp á kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 25. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.

Aðstaða í Reykjaskóla:
Svefnherbergin eru búin 2 uppbúnum rúmum, þ.e. koddi, sæng, lak og sængurföt fylgja með, litlu borði og tveim stólum. Nemendur hafi með sér handklæði og sundföt. Sundlaug, gufubað og heitir pottar eru á staðnum.
Innfalið í skólagjaldi er fullt fæði, þ.e. morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur auk kaffiveitinga tvisvar á dag.
Haldið er lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig upp á, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald á námskeið er 109.000 kr. og gjald fyrir Höfunda í heimsókn er 87.000 kr.

Staðfestingargjald er kr. 40.000 og greiðist það við skráningu. Staðfestingargjald er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs.
Gjaldið skal vera að fullu greitt í síðasta lagi 1. júní 2023. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.

Umsókn telst gild þegar staðfestingargjald hefur verið greitt. Greiða skal í síðasta lagi 
 15. apríl til Bandalags ísl. leikfélaga og senda tilkynningu á netfangið info@leiklist.is. Við móttöku umsóknar er send krafa í banka fyrir staðfestingargjaldi. Greiða skal kröfuna í bankanum en ekki millifæra beint á reikning. 

Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann. Þá styrkja mörg stéttarfélög tómstundastarf félagsmanna og fellur Leiklistarskólinn þar undir.

Kennarar skólans og starfsfólk:
Skólastýra — F. Elli Hafliðason , donellione@gmail.com
Skólastýra — Jónheiður Ísleifsdóttir, jonheidur@gmail.com
Leiklist II — Árni Pétur Guðjónsson, arnipetur@simnet.is
Leikstjórn II — Jenný Lára Arnórsdóttir, jennylaraarnors@gmail.com
Sérnámskeið fyrir leikara — Björn Ingi Hilmarsson, bjorningi@mi.is

Hafið samband við Þjónustumiðstöð BÍL ef spurningar eru varðandi skólann eða annað honum tengt:

Bandalag íslenskra leikfélaga, Kleppsmýrarvegi 8, 104 Reykjavík
sími 551 6974, netfang info@leiklist.is, veffang www.leiklist.is