Starfstími skólans á þessu ári er frá 8. til 16. júní að Reykjaskóla í Hrútafirði

Bæklingur skólans starfsárið 2019 á PDF formi


Kveðja frá skólanefnd:

 

 

Kæru leiklistarvinir!

 

Það er okkur sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin í Reykjaskóla í sumar þar sem leiklistarskólinn okkar verður settur í tuttugasta og þriðja sinn. Við vonum að þetta skólaár verði sama uppspretta metnaðar, sköpunar og gleði og verið hefur.
Að þessu sinni verða þrjú fjölbreytt námskeið í boði. Við bjóðum velkomna Aðalbjörgu Árnadóttur sem kennir hjá okkur í fyrsta sinn og mun taka á móti nýjum nemendahópi á Leiklist I. Einnig fögnum við því að fá Árna Kristjánsson í kennarahópinn okkar. Hann mun sjá um Leikritun II sem er framhald af byrjendanámskeiðinu í leikritun sem Karl Ágúst Úlfsson var með í fyrrasumar. Sérnámskeið í leiklist fyrir lengra komna verður í höndum hins þrautreynda kennara Rúnars Guðbrandssonar. Boðið hefur verið upp á sambærilegt námskeið áður og afar vel af því látið.
Þá er vert að nefna að við ráðgerum framhaldsnámskeið næsta vetur um það sem gerist bak við tjöldin í leikhúsinu. Þetta námskeið verður væntanlega í Reykjavík í höndum Evu Bjargar Harðardóttur en verður nánar auglýst síðar.

Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju,
Hrefna, Dýrleif, Herdís, Hrund og Gísli


Skráning í skólann stendur yfir frá 15. mars til 15. apríl. Umsóknir skal fylla út á Leiklistarvefnum, www.leiklist.is. Opnað verður fyrir umsóknir 15. mars.

Reglan Fyrstur kemur – fyrstur fær gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 40.000, ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á tiltekið námskeið fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans (sjá einnig Reglur hér að neðan).

Umsókn telst gild þegar staðfestingargjald hefur verið greitt. Greiða skal í síðasta lagi 15. apríl til Bandalags ísl. leikfélaga og senda tilkynningu á netfangið info@leiklist.is.

Staðfestingargjald skal greiða við skráningu til Bandalags ísl. leikfélaga og tilkynning send á netfangið info@leiklist.is.  Greiða skal inn á reikning:
Kt. 440169-0239 / Banki 334-26-5463


Starfstími skólans á þessu ári er frá 8. til 16. júní. Skólasetning er laugardaginn 8. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Reykjaskóla kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00 en ekki er boðið upp á kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 16. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.

Aðstaða í Reykjaskóla: Svefnherbergin eru búin 2 uppbúnum rúmum, þ.e. koddi, sæng, lak og sængurföt fylgja með, litlu borði og tveim stólum. Nemendur hafi með sér handklæði og sundföt. Sundlaug, gufubað og heitir pottar eru á staðnum. Haldið er lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig upp á, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald á námskeið er 98.000 kr. Staðfestingargjald er kr. 40.000 og greiðist það skráningu. Staðfestingargjald er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða símleiðis með greiðslukorti. 

Gjaldið skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.

Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann. Sótt er um á þar til gerðu umsóknarformi á Leiklistarvefnum.

Kennarar skólans og starfsfólk:

Skólastýra — Dýrleif Jónsdóttir, dillajons@gmail.com
Skólastýra — Hrefna Friðriksdóttir, hrefnafr@hi.is
Leiklist I — Aðalbjörg Árnadóttir,  adalbjorga@gmail.com
Leikritun II — Árni Kristjánsson, arnikristjans.arkandi@gmail.com
Sérnámskeið fyrir leikara — Rúnar Guðbrandsson, labloki@mmedia.is

 


Leiklist I – Aðalbjörg Árnadóttir

Á námskeiðinu skoðum við list leikarans frá ýmsum hliðum. 

Nemendur þjálfa líkamsbeitingu, rödd, samvinnu, spuna og nálgun við texta.
Við förum af stað með eftirfarandi spurningar:
Hvar og hvernig byrja ég, þegar ég tekst á við nýtt verkefni?
Hvernig veit ég hvað ég á að gera?
Er eitthvað eitt rétt?
Hvers vegna eru mistök frábær?
Hver er samningurinn við áhorfendur ?

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist sjálfstæðum vinnuaðferðum leikarans og njóti þess að gera tilraunir, mistök og meistaraverk. 

Aðalbjörg Árnadóttir útskrifaðist með BFA gráðu í leiklist frá Listaháskóla Íslands 2005. Hún starfar sem leikkona og sviðshöfundur. Aðalbjörg hefur starfað hjá Borgarleikhúsinu og Leikfélagi Akureyrar og er meðlimur í sviðslistahópunum 16 elskendur og Soðið svið. Aðalbjörg hefur leikið í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og útvarpsleikritum. Sem sviðshöfundur hefur Aðalbjörg hlotið tilnefningar til Grímuverðlauna fyrir handrit, dans og sviðshreyfingar og unnið verðlaunin fyrir Sprota ársins.  

 


Leikritun II – Árni Kristjánsson

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt Leikritun I eða sambærilegt námskeið eða hafa umtalsverða reynslu af ritun og vinnslu leiktexta. Einkum eru þeir sem eru með verk í smíðum, hvort sem það er komið langt á veg eða skammt, hvattir til að taka þátt í námskeiðinu og nýta sér jákvætt, skapandi og styðjandi andrúmsloft. 

Helsta markmið námskeiðsins er að temja sér góð vinnubrögð þegar kemur að endurskrifum. Rifjaðar verða upp nokkrar góðar reglur um leikritun en einnig farið dýpra ofan í persónuþróun, uppbyggingu verksins og rannsóknarvinnu höfundarins.

Árni Kristjánsson útskrifaðist með MA gráðu í Leikstjórn frá Bristol Old Vic árið 2016. Hann er einnig með kennsluréttindi og BA gráðu í Fræði og framkvæmd frá LHÍ. Árni stofnaði leikhópinn Lakehouse með Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur, tónskáldi og saman settu þau upp Í samhengi við stjörnurnar eftir Nick Payne árið 2016 og Rejúníon eftir Sóleyju Ómarsdóttur árið 2018 í Tjarnarbíói. Leikhópurinn einbeitir sér að þróun á nýjum íslenskum og erlendum leikverkum.

Árni hefur kennt leiklist, leikstýrt og skrifað leikrit og libretto fyrir óperur. Hann fékk Grímuna fyrir besta Útvarpsleikrit með verkið Söngur hrafnanna árið 2014, skrifaði óperuhandrit að Selshamnum á Óperudögum 2016 og að Plastóperunni 2018. Árni hefur kennt leikritun á námskeiðum í Tjarnarbíói, Kvikmyndaskólanum, Okkar eigin vinnustofunni á Flateyri, hjá Leikfélagi Akureyrar og nú í fyrsta sinn í Bandalagsskólanum.

 


Sérnámskeið fyrir leikara- Rúnar Guðbrandsson

Sérnámskeið í leiklist, ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I og II eða sambærileg grunnnámskeið eða hafa umtalsverða reynslu af sviðsleik.

Á námskeiðinu verða kynntir mismunandi leikstílar og ólíkar aðferðir við að greina og túlka leikverk. Námskeiðið verður að hluta til fræðilegt, en einkum þó verklegt. Þátttakendum verða sendar stuttar senur til að kynna sér (og helst að læra utan að) áður en námskeiðið hefst. Hver dagur hefst á fyrirlestri, fyrirspurnum og umræðum um tiltekinn leikstíl, því næst verður vorksjoppað í nokkra stund, þar sem allur hópurinn vinnur saman með æfingar og hugmyndir tengdar viðkomandi leikstíl. Seinni partinn vinnur fólk í smærri hópum og pörum með áðurnefndar senur og spreytir sig á að beita þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið. Í lok dagsins verður svo afraksturinn skoðaður og ræddur. Síðustu dagana vinnur svo hver hópur (pör) eina senu í einum tilteknum stíl og flytur hana að lokum fyrir áhorfendur.

Leikstílar sem unnið verður með: Commedia dellarte. Kerfi Stanislavskys (Stanislavskys system) og ameríska metóðan (The American method, t.d. hugmyndir Lee Strassberg, Stellu Adler, Sanford Meisner). Leikstíll Bertolds Brecht (Epíska leikhúsið). Fátæka leikhúsið, (Jerzy Grotowski). Dansleikhús… og hugsanlega eitthvað fleira. Að auki fá þátttakendur lesefni til fróðleiks og er æskilegt að þeir séu læsir á enska tungu.

Rúnar Guðbrandsson nam upphaflega leiklist í Danmörku og starfaði þar sem leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro, hjá leikhópi Jerzy Grotowskis í Wroclaw í Póllandi, Dario Fo á Ítalíu, Jury Alschitz í Kaupmannahöfn og víðar, og Anatoly Vasiliev í Moskvu. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leiklistar- fræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester á Englandi og hefur lokið fyrri hluta doktorsnáms í fræðunum. Hann hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara víða í Evrópu. Rúnar var fyrsti prófessor í leiktúlkun við Listaháskóla Íslands. Hann hefur rekið leiksmiðjuna Lab Loka síðan 1992, stjórnað þjálfun hópsins og stýrt flestum verkefnum hans hérlendis og erlendis. Hann hefur auk þess fengist við ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar.

Þetta er í áttunda sinn sem Rúnar kennir við skólann.


Reglur skólans

Nemendur sjá sjálfir um þrif á sínum herbergjum og ganga að öðru leyti vel um alla sameiginlega aðstöðu, svo sem skólastofur, ganga og salerni.

Reglur íslenskra heimavistarskóla um reykingar og áfengisneyslu gilda hér nema í þeim undantekningartilfellum sem skólastýrur ákveða.

Tillit skal taka til þeirra sem fara fyrr að sofa en aðrir á kvöldin. Svefnstyggum er bent á að eyrnatappar eru þarfaþing þar sem margir ganga um á mismunandi tímum. Ef öllum líður vel næst mesti hugsanlegi árangur í starfi og leik!

Skólastýrurnar Dýrleif Jónsdóttir og Hrefna Friðriksdóttir verða nemendum og kennurum til aðstoðar alla vikuna. Hikið ekki við að leita til þeirra ef eitthvað amar að.

Ef þið eigið von á gestum í skólann sem þurfa mat eða gistingu skal skilyrðislaust fá leyfi hjá skólastýrum og starfsfólki skólans og er sá sem gestinn fær jafnframt ábyrgur fyrir greiðslum vegna þessa.