Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga 2012

Skráning í skólann stendur yfir frá 15. mars til 15. apríl  nema á Trúðanámskeiðið, þar verður opið fyrir skráningar til 30. apríl. Reglan „fyrstur kemur – fyrstur fær“ gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 35.000 ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Umsókn má senda á netfangið info@leiklist.is og leggja staðfestingargjaldið inn á reikning 334-26-5463, kt. 440169-0239

Bæklingur skólans starfsárið 2012 er hér á PDF formi


Kveðja frá skólanefnd:

 skolanefnd

Kæra leiklistarfólk!

Þá er komið að því að kynna námskeiðin sem haldin verða á þessu sextánda starfsári Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Skólinn verður settur þann 9. júní 2012 að Húnavöllum í Húnavatnshreppi þar sem sumarskólinn hefur starfað undanfarin tvö ár.

Það er okkur sönn ánægja að bjóða nemendur velkomna á spennandi námskeið með úrvals kennurum. Í sumar verða þrjú námskeið í boði. Því hefur oft verið haldið fram að skólinn eigi að leggja sérstaka áherslu á að laða nýtt fólk að leikhúsinu. Til að svara þessu verður boðið upp á grunnnámskeið í leiklist í ár og þar mun Árni Pétur Guðjónsson leiða nýliða inn í töfraheim leiklistarinnar. Skólinn hefur einnig lagt áherslu á samfellu í námi og í sumar mun Sigrún Valbergsdóttir fylgja eftir velheppnuðum leikstjórnarnámskeiðum síðastliðinna tveggja ára. Vegna mikillar eftirspurnar fáum við svo Hörpu Arnardóttur til að bjóða reyndari leikurum að leggja til atlögu við trúðleik.

Eins og áður verður höfundum boðið að dvelja að Húnavöllum við skapandi skrif. Ekki er um að ræða námskeið eða leiðsögn heldur gefst höfundum þarna fyrst og fremst tækifæri til að fá útrás fyrir sköpunargleðina.

Hlökkum mikið til að sjá ykkur – með bestu kveðju,
Hrefna, Dýrleif, Gunnhildur, Herdís og Hrund.

 


 

Starfstími skólans á þessu ári er frá 9. til 17. júní að Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu

Skólasetning er laugardaginn 9. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Húnavöllum kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00, ekki er boðið uppá kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 17. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.
Aðstaða að Húnavöllum: Svefnherbergin eru búin 2 rúmum án rúmfata, skáp, litlu borði og tveim stólum. Góðum dýnum verður bætt inn á stærstu herbergin og þau þannig gerð þriggja manna. Nemendur hafi með sér handklæði, sæng og kodda ásamt rúmfötum, eða svefnpoka. Sundlaug og heitur pottur eru á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald á öll námskeiðin er kr. 72.500.-. Gjaldið skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn. Höfundar í heimsókn greiða kr. 57,500.-

Staðfestingargjald allra er kr. 35.000 kr. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða með greiðslukorti.

Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann.

 


 

Námskeið 1 – Ath. Námskeiðið er fullbókað og 4 á biðlista!

arnipetur

Leiklist I – Grunnnámskeið
Kennari Árni Pétur Guðjónsson
Þátttökugjald: kr. 72.500
Tími: 9. til 17. júní 2012
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Árni Pétur Guðjónsson stundaði nám við Ríkisleiklistarskólann í Kaupmannahöfn, við Leiklistarskóla Íslands og er með leiklistarkennaragráðu frá Danmörku. Hann hefur starfað sem leikari og leiklistarkennari um víða veröld, m.a. í Leiklistarskóla íslands og Listdansskólanum. Hann var fastráðinn leikari við Borgarlleikhúsið 1989-2002. Er oft nefndur „Guðfaðir tilraunaleikhúsins“ enda verið með í eða staðið fyrir því markverðasta sem komið hefur þar fram hér á landi. Sem dæmi má taka vinnu leikhópanna Vesturports, Lab Loka, Herbergi408.is og Áhugaleikhús atvinnumanna.
Á síðasta leikári var Árni Pétur tilnefndur til Grímunnar fyrir einleikinn Svikarinn í uppsetningu Rúnars Guðbrandssonar.
Þetta er í annað sinn sem Árni Pétur kennir við skólann.

Leiklist I er grunnnámskeið fyrir leikara. Næsta sumar verður Leiklist II í beinu framhaldi. Þegar nemendur hafa sótt bæði grunnnámskeiðin geta þeir sótt ýmis sérnámskeið sem skólinn mun halda á næstu árum.

Nemendur vinna út frá spuna með áherslu á endurtekninguna, leiktækni og leikni.
Markmið námskeiðsins er að nemandinn kynnist sjálfstæðum vinnuaðferðum leikarans og auki þannig möguleika sína á að gefa skapandi huga sínum listrænt form. Áhersla verður lögð á þjálfun leikarans og rannsakandi vinnubrögð.
Nemendur þjálfa líkamsbeitingu, raddbeitingu, samvinnu og textameðferð.

Unnið verður með texta úr leikverki sem nemendur fá sentáður en námskeiðið hefst. Kynntar verða ýmsar aðferðir til að nálgast persónur úr verkinu og tengjast því á skapandi hátt.

 


 

Námskeið 2

sigrunLeikstjórn III – Sérnámskeið
Kennari Sigrún Valbergsdóttir
Þátttökugjald: kr. 72.500
Tími: 9. til 17. júní 2012
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Sigrún Valbergsdóttir útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og nam síðar leikhúsfræði við háskólann í Köln. Hún hefur leikstýrt um 50 sýningum, jöfnum höndum með atvinnu- og áhugafólki, á Íslandi og í Færeyjum og haldið auk þess mörg námskeið í leiklist og leikstjórn, hér heima og erlendis. Einnig hefur hún þýtt og skrifað fyrir leikhús. Sigrún hefur verið framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra leikfélaga, leikhússtjóri Alþýðuleikhússins, framkvæmdastjóri erlendra verkefna hjá Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000 og kynningarstjóri Borgarleikhússins. Hún starfar núna sem leikstjóri og leiðsögumaður.
Þetta er í ellefta sinn sem Sigrún kennir við skólann.

 

Sérnámskeið í leikstjórn, ætlað þeim sem sótt hafa Leikstjórn I og II, og/eða framhaldsnámskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leikstjórn.

Á námskeiðinu  verður unnið útfrá sögn og heildarhugmynd við uppfærslu á leiksýningu. Hver nemandi fær eitt verk að vinna með sem hann ber alla ábyrgð á og er hæstráðandi við allar ákvarðanir.

Um leið og skráningartíma lýkur fá nemendur verk í hendur til að vinna með. Fram að byrjun skólans verður unnið í n.k. fjarnámi, þannig að nokkur undirbúningur hefur farið fram þegar skólinn hefst.

Í masterclass kennslu verða lagðir upp spunar, skoðaðar senur og hvörf, pælt í útliti og stíl að viðbættri umfjöllun um persónu- og textaleikstjórn.

 


 

Námskeið 3

harpa_arnardottirTrúðleikur – Sérnámskeið
Kennari Harpa Arnardóttir
Þátttökugjald: kr. 72.500
Tími: 9. til 17. júní 2012
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars  

Skráningum lýkur 30. apríl!

Harpa Arnardóttir stundaði nám í málaradeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1984-1986 og útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1990. Hún hlaut Grímuna 2009 fyrir leik sinn í Steinar í djúpinu, en auk þess hefur hún fimm sinnum verið tilnefnd til Grímunnar sem besta leikkona í aðalhlutverki; fyrir leik sinn í And Björk of course (Borgarleikhúsið) 2003, Sporvagninn Girnd (Borgarleikhúsið) 2004, Dubbeldusch (Vesturport/Leikfélag Akureyrar) 2008, Dauðasyndirnar (Borgarleikhúsið) 2009 og Steinar í djúpinu (Lab Loki/Hafnarfjarðarleikhúsið) 2009. Hún hefur tvívegis verið tilnefnd til menningarverðlauna Dagblaðsins fyrir störf sín á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu.
Harpa stofnaði listafélagið Augnablik1991. Markmið félagsins er að vera vettvangur fyrir listsköpun, rannsóknir og fræðslu. Félagið hefur sett upp leiksýningar, haldið tónleika og námskeið og staðið fyrir ferðum inn á hálendi Íslands.
Harpa hefur kennt leiklist, leikstýrt og leikið í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum, nú síðast í Stóra planinu og Kurteisu fólki í leikstjórn Ólafs Jóhannessonar. Harpa er áhugamanneskja um íslenska leikritun og hefur tekið þátt í tuttugu og þremur frumuppfærslum á nýjum íslenskum verkum. Hún var tilnefnd ásamt samstarfsólki sínu til Grímunnar fyrir handritið að Dauðasyndunum 2009. Hún stundar nú meistaranám í Ritlist við Háskóla Íslands.
Þetta er í fjórða sinn sem Harpa kennir við skólann.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt Leiklist I og II eða sambærileg grunnnámskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leiklist.

Námskeiðslýsing:

Farið verður í undirstöðuatriði trúðsleiksins. Hver nemandi setur upp nefið og kynnist trúðnum sínum. Trúðarnir æfa trúðareglurnar og kynnast persónulegu sambandinu sínu við áhorfandann. Við vinnum með leiktækni og leikgleði og könnum hvernig þessir tveir þættir skarast. Trúðatæknin er frábær leið til þess að kynnast list augnabliksins þar sem allt getur gerst. Námskeiðið þjálfar nemendur í sviðsleik og hjálpar þeim til að elska mistökin og gera eins vel og þeir geta. Trúðarnir reyna líka þá list að vera saman á sviði og fást við þekkt stef úr leikbókmenntunum.

 


 

Höfundar í heimsókn
Þátttökugjald: kr. 57.500
Tími: 9. til 17. júní 2012
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Blundar í þér skáld – ertu að burðast með hugmynd – áttu hálfskrifað handrit – vantar þig lausa stund til að ljúka leikritinu?

Undanfarin sumur hefur skólinn boðið höfundum að dvelja að Húnavöllum við skapandi skrif. Við teljum að mjög vel hafi tekist til og höfundar notið þess að skapa, skrifa og skemmta sér. Það er okkur því sönn ánægja að endurtaka þetta boð.

Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda. Þá geta höfundar nýtt sér aðstöðu í einni af kennslustofunum.

Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta tækifæri og lofum því að hinn eini sanni skólaandi verði einstök uppspretta sköpunargleði!

hunavellir

Húnavallaskóli, eða Hótel Húnavellir eins og hann heitir á sumrin, er staðsettur í Húnavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þangað eru 239 km. frá Reykjavík, 118 eða 156 km. frá Akureyri (eftir því hvaða leið er farin) og fjarlægðin frá Blönduósi er um 15 km.

kort