Leikhópurinn Háaloftið frumsýnir næsta haust í Tjarnarbíói leikverkið Lokaæfingu eftir Svövu Jakobsdóttur.
Leikarar munu leiklesa upp úr verkinu föstudaginn 19. júní kl. 17.40 í Ráðhúsinu og í tilefni 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna mun gestum gefast kostur á að kaupa miða á sýninguna með 1.000 króna afslætti á staðnum í forsölu.
Leikarar eru Nanna Kristín Magnúsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson og Kristín Pétursdóttir. Leikmynd verður í höndum Stígs Steinssonar en búninga sér Una Stígsdóttir um. Tinna Hrafnsdóttir leikstýrir og Sveinn Geirsson semur tónlist.
Lokaæfing er eitt þekktasta leikverk Svövu og var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1983. Sú leikgerð sem hér er í meðförum Háaloftsins var aftur á móti frumsýnd hjá Bátsleikhúsinu í Kaupmannahöfn í september 1987 og stuttu síðar sama ár hjá Leikfélagi Akureyrar en Svava gerði breytingar á verkinu árið 1985. Þetta er því í fyrsta skipti sem seinni leikgerð Lokaæfingar er sýnd í Reykjavík svo vitað sé.
Svava Jakobsdóttir (1930-2004), leikskáld og fyrrverandi alþingismaður, var einn fremsti rithöfundur Íslendinga á 20. öld. Hún var auk þess ötul baráttukona fyrir jafnrétti og hafði mikil áhrif með sögum sínum, leikritum og fræðiskrifum. Hjón á fertugsaldri loka sig af vikum saman niðri í heimatilbúnu neðanjarðarbyrgi þar sem þau æfa í síðasta sinn af fullri alvöru dvöl í byrginu til að geta lifað af endalok heimsins. Æfingin fer ekki eins og til var ætlast heldur snýst upp í martröð og hefur í för með sér ófyrirséðar afleiðingar.
Uppsetning Háaloftsins á Lokaæfingu er hluti af Lestrarhátíð Bókmenntaborgar 2015 sem í ár er helguð höfundinum Svövu Jakobsdóttur.