Miðvikudaginn 10. maí frumsýnir Leikklúbburinn Saga nýtt verk sem hefur hlotið nafnið Núna. Verkið er skrifað af hópnum í samvinnu við leikstjórann Guðjón Þorstein Pálmarsson og byggir á sögum úr lífi þeirra sjálfra. Sýnt er í Útihúsinu, Hafnarstræti 73. nuna.jpgMiðvikudaginn 10. maí frumsýnir Leikklúbburinn Saga nýtt verk sem hefur hlotið nafnið Núna. Verkið er skrifað af hópnum í samvinnu við leikstjórann Guðjón Þorstein Pálmarsson og byggir á sögum úr lífi þeirra sjálfra. Sýnt er í Útihúsinu, Hafnarstræti 73.

Segja má að sögurnar séu þjóðsögur framtíðarinnar, nútímabaðstofusögur, sagðar á einfaldan og heiðarlegan hátt og er nálægð leikaranna við áhorfendur mikil. Efnistökin spanna allt frá súkkulaðiáti til morðtilrauna. Ráðríkar mæður, aðþrengdir afar, kóngafólk og óskiljanlegir útlendingar koma við sögu ásamt mörgum fleirum og ættu allir kannast við einhverjar af þessum þjóðsagnahetjum framtíðarinnar.

Leikstjórinn, Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, segir vinnuna með leikurunum hafa verið sérstaklega gefandi. „Við erum að vinna með mjög einfalda en jafnframt mjög erfiða aðferð. Frásögnin er „bein“, og ekki er stuðst við eiginlegt handrit og haldreipin sem leikararnir hafa ekki mörg.“

Fyrirhugaðar eru 6 sýningar og er vissara að hafa snör handtök, því að nú þegar er uppselt á fyrstu þrjár sýningarnar. Miðapantanir eru í síma 865 7219.