Fulltrúi dómnefndar Þjóðleikhússins kom á aðalfund Bandalags ísl. leikfélaga þann 7. maí og tilkynnti niðurstöðu dómnefndar. Það var Stúdentaleikhúsið í Reykjavík með sýninguna Þú veist hvernig þetta er sem varð hlutskarpast og óskar Leiklistarvefurinn félaginu innilega til hamingju.  Image

  Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram tólfta leikárið í röð. Tólf leikfélög sóttu eftir að koma til greina við valið með alls fjórtán sýningar. Dómnefnd Þjóðleikhússins í ár var skipuð Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóra, Hlín Agnarsdóttur, leiklistarráðunauti Þjóðleikhússins og Þórhalli Sigurðssyni leikara og leikstjóra við Þjóðleikhúsið.

Eftirtalin leikfélög sóttu um með þessar sýningar:

Stúdentaleikhúsið
með Þú veist hvernig þetta er eftir hópinn og leikstjórann Jón Pál Eyjólfsson
Ungmennafélagið Íslendingur
með Bláa hnöttinn eftir Andra Snæ Magnason í leikstjórn Björns Gunnlaugssonar
Leikfélag Mosfellssveitar
með Peysufatadaginn eftir Kjartan Ragnarsson í leikstjórn Arnar Árnasonar
Leikfélag Kópavogs og Hugleikur
með Memento mori eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur
Skagaleikflokkurinn
með Járnhausinn eftir þá bræður Jón Múla og Jónas Árnason í leikstjórn Helgu Brögu Jónsdóttur
Leikfélag Selfoss
með Náttúran kallar sem var spunnin af hópnum í leikstjórn Sigrúnar Sólar Ólafsdóttur
Hugleikur
með Patataz eftir Björn Sigurjónsson í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar
Leikfélag Mosfellssveitar
með Ævintýrabókina eftir og í leikstjórn Péturs Eggerz
Leikfélagið Grímnir
með Fiðlarann á þakinu eftir Joseph Stein og Jerry Bock í leikstjórn Ingunnar Jensdóttur
Leikfélag Vestmannaeyja
með Makalausa sambúð eftir Neil Simon í leikstjórn Ásgeirs Sigurvaldasonar
Leikfélag Hornafjarðar
með Súperstar eftir Andrew-Lloyd Webber og Tim Rice í leikstjórn Gunnars Sigurðssonar
Leikfélag Húsavíkur
með Sambýlinga eftir Tom Griffin í leikstjón Odds Bjarna Þorklessonar
Stúdentaleikhúsið
með Tilbrigði við sjófugl byggt á Mávinum eftir Anton Tsékov í leikstjórn Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur og Mörtu Nordal
Leikfélag Seltjarnarness
með Blessað barnalán eftir Kjartan Ragnarsson í leikstjórn Bjarna Ingvarssonar.

Eins og ykkur er flestum kunnugt urðu þjóðleikhússtjóraskipti um s.l. áramót og með nýjum húsbónda/eða húsmóður kemur nýtt fólk og nýir siðir. Nýja dómnefndin tók til starfa í byrjun desember 2004 en sökum anna nýja leikhússtjórans tókst okkur ekki öllum að sjá allar sýningarnar sem sóttu um að þessu sinni. Við skiptum því með okkur verkum að tillögu þjóðleikhússtjóra en meirihluti nefndarinnar sá flestar sýningarnar annað hvort á heimavelli eða á myndbandi. Eins og endranær var ánægjulegt að verða vitni að því fjölbreytta og mikilvæga starfi sem fer fram í áhugaleikfélögum landins en án starfsemi þeirra væri ekkert atvinnuleikhús á Íslandi. Íslensk leiklist byggði til skamms tíma nær eingöngu á þeirri hefð sem skapast hafði í starfsemi áhugamanna í leiklist út um allt land. Áður en við ljóstrum upp hvaða sýning var valin áhugaleiksýning ársins 2005 viljum við nefna nokkrar sýningar hér í kvöld sem vöktu athygli okkar.

Þar ber fyrst að nefna sýningu Leikfélags Húsavíkur á Sambýlingum sem var einlæg og sönn lýsing á þroskaheftum einstaklingum sem búa saman á sambýli, leikstjórnin einkenndist af lifandi persónusköpun og frábærri úrvinnslu leikaranna, afar falleg og fagmannlega unnin sýning af leikhópnum og öllum aðstandendum.

Sýning Leikfélags Selfoss á verkinu Náttúran kallar var bráðskemmtileg sýning sem sýndi okkur þverskurð af útilegu- og útivistarmenningu Íslendinga. Leikhópurinn var samstilltur og agaður undir stjórn leikstjórans Sigrúnar Sólar og sýningin var frumleg í uppsetningu og vel leikin.

Sýning Leikfélags Kópavogs og Hugleiks á Memento Mori var einnig gott dæmi um vel unna og frumlega áhugamannasýningu sem vakti okkur til umhugsunar um eilífðarmálin, dauðann og mörkin milli lífs og dauða.

Þá var sýning Leikfélagsins Grímnis á Fiðlaranum á þakinu enn eitt dæmið um kraftmikið starf áhugaleikfélagann, framtakið lofsvert og hreint ótrúlegt að sjá 5% byggðarinnar hér í kring taka þátt í uppfærslunni.

Það væri hægt að nefna fleiri dæmi um metnaðarfullt framtak og djörfung í verkefnavali ekki síst þar sem frumsamin íslensk verk voru á ferð. Áhugasýning ársins 2005 er einmitt í flokki frumsaminna verka þar sem hópurinn undir stjórn leikstjórans lagði allur hönd á plóg og skapaði eftirminnilega og róttæka sýningu.
Dómnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2004 –2005 sýningu Stúdentaleikhússins á ,,Þú veist hvernig þetta er.” Höfundar verksins er leikhópurinn sjálfur ásamt leikstjóranum Jóni Páli Eyjólfssyni.

Umsögn dómnefndar um sýninguna er svohljóðandi:

Sýning Stúdentaleikhússins á Þú veist hvernig þetta er, er hárbeitt og djörf háðsádeila á íslenskan samtíma sett fram í revíuformi sem allur leikhópurinn kemur að. Hún kemur sem hressilegur gustur inn í áhugastarf leikfélaganna, textinn er bæði fyndinn og alvarlegur og kemur við kauninn á áhorfendum. Framsetning og túlkun hópsins er í ætt við pólitískt leikhús eins og það gerðist best á síðustu öld. Uppsetningin, útlit og hönnun leiksviðsins er stílhrein og einföld eins og vera ber og hitti beint í mark. Leikhópurinn er ekki feiminn við að setja fram róttæka þjóðfélagsgagnrýni og láta okkur fá það óþvegið hvort sem um er að ræða Íraksstríð, kynþáttafordóma eða fjölmiðlaklám. Það er greinilegt að hópurinn hefur unnið undir samstilltu átaki leikstjórans Jóns Páls Eyjólfssonar og áttu margir leikaranna frábæra spretti eins og t.d. í atriðinu Dauðinn í beinni. Leiksýningin var eins og ferskur andblær í sinnuleysi neyslumenningar og það var bæði gott og gaman að finna fyrir því að ungt fólk í leikhúsi tæki afstöðu gagnvart pólitík samtímans jafnt innanlands sem utan.

F.h. dómnefndar og Þjóðleikhússins óska ég Stúdentaleikhúsinu til hamingju og býð því að koma og sýna Þú veist hvernig þetta er í Þjóðleikhúsinu í byrjun júní.

Hlín Agnarsdóttir.