Nýbreytni er eitt af því sem einkennir verkefnaskrá Þjóðleikhússins í vetur, en leikhúsið frumflytur nú tíu verk á Íslandi, ný íslensk og erlend verk og sígilt verk sem ekki hefur verið sviðsett hér áður. Nýr gamanleikur, eitt af meistaraverkum grísku gullaldarinnar, íslensk leikgerð á vinsælli barnabók, „vísindasöngleikur“ eftir einn af höfundum ungu kynslóðarinnar, áhrifamikil erlend verk í nánum tengslum við samtímann og vel heppnaðar sýningar frá fyrra leikári, ásamt barnasýningum og öflugu fræðslustarfi.
Allt þetta og meira til er að finna á verkefnaskrá Þjóðleikhússins sem nú fagnar vetri, íklætt vinnupöllum frá botni upp á burst.
Stóra sviðið
Fyrsta frumsýning haustsins á Stóra sviðinu er Sitji guðs englar, leikgerð Illuga Jökulssonar eftir hinum vinsælu barnabókum Guðrúnar Helgadóttur Sitji Guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni. Leikstjóri er Sigurður Sigurjónsson en Þórarinn Eldjárn gerði söngtexta. Meðal leikenda eru Brynhildur Guðjónsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Þórunn Erna Clausen, Sigurður Skúlason og Ragnheiður Steindórsdóttir. Frumsýning er 29. september.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir leggur undir sig Stóra sviðið í lok október þegar frumsýndur verður grátbroslegur gamanleikur, Stórfengleg, byggður á ævi Florence Foster Jenkins sem hefur verið kölluð „versta söngkona allra tíma“. Örn Árnason leikur stórt hlutverk en tveir ungir leikarar, Stefán Hallur Stefánsson og Dóra Jóhannsdóttir stíga sín fyrstu skref á sviði Þjóðleikhússins að loknu leiklistarnámi í þessari sýningu. Ágústa Skúladóttir leikstýrir en frumsýning verður í lok október.
Svall og taumleysi ríkja á sviðinu um jólin þegar einn þekktasti harmleikur grísku gullaldarinnar, Bakkynjur eftir Evrípídes verður frumsýndur í fyrsta sinn á íslensku leiksviði. Giorgos Zamboulakis er leikstjóri og beitir sérstökum vinnuaðferðum sem byggjast á forngrískri leikhúshefð í samvinnu við Thanos Vovolis sem sér um leikmynd, búninga, grímur og gervi. Atli Ingólfsson semur tónlist og Erna Ómarsdóttir sér um dansa og sviðshreyfingar.
Nútíminn tekur svo við af fornöldinni í febrúar þegar Leg, vísindasöngleikur eftir Hugleik Dagsson verður frumsýndur. Hugleikur hefur vakið mikla athygli innan lands og utan með örmyndasögum sínum, sem fjalla um meinsemdir nútímasamfélags á miskunnarlausan og meinfyndinn hátt. Leikstjóri er Stefán Jónsson en Ilmur Stefánsdóttir gerir leikmynd. Tónlist er eftir Davíð Þór Jónsson.
Síðasta frumsýning leikársins á Stóra sviðinu verður Hjónabandsglæpir eftir Eric-Emmanuel Schmitt. Þetta er glænýtt verk eftir höfund hinna geysivinsælu verka Abel Snorko býr einn og Gesturinn. Edda Heiðrún Backman leikstýrir þeim Elvu Ósk Ólafsdóttur og Hilmi Snæ Guðnasyni í þessu nærgöngula átakaverki.
Kassinn
Kassinn stimplaði sig eftirminnilega inn í íslenskt leikhúslíf á síðasta ári með verðlaunasýningunni Pétri Gaut eftir Henrik Ibsen, í leikstjórn og leikgerð Baltasars Kormáks. Pétur Gautur, sem hlaut 6 Grímur í vor, meðal annars sem besta sýning ársins, mun ráða áfram ríkjum í Kassanum fram eftir hausti.
Í janúar er fyrsta frumsýning ársins í Kassanum en það er Pleasure Islands – Ókannaða landið eftir Jacob Hirdwall í leikstjórn Maríu Ellingsen. Þetta er áleitið spennuverk sem tekst á við stórar spurningar. Hvernig förum við með þá þekkingu sem við öðlumst og hversu langt er maðurinn tilbúinn að ganga í leit að heilbrigði, þekkingu eða eilífu lífi?
Hálsfesti Helenu eftir Carole Fréchette, sem er eitt þekktasta nútímaleikskáld Kanada, verður frumsýnt í Kassanum í apríl. Áhrifamikið og óvenjulegt verk um mannlega samkennd og löngunina til að endurheimta hið glataða. Mikilvægt verk á tímum stríðshörmunga í Austurlöndum nær.
Smíðaverkstæðið
Fyrsta frumsýning ársins á Smíðaverkstæðinu er í leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar en það er Sumardagur eftir Jon Fosse. Leikrit Fosses hafa vakið mikla athygli víða um Evrópu á undanförnum árum, en Sumardagur er fyrsta leikrit hans sem sýnt er í íslensku atvinnuleikhúsi. Meðal leikara í sýningunni eru Kristbjörg Kjeld, Margrét Vilhjálmsdóttir og Hjálmar Hjálmarsson.
Í október verður frumsýnt verkið Patrekur 1,5 eftir Michael Druker í leikstjórn Gunnars Helgasonar. Bráðfyndið leikrit, þar sem tekist er á við fordóma af ýmsu tagi, á frumlegan og skemmtilegan hátt. Verkið verður sýnt í Þjóðleikhúsinu, framhaldsskólum og víðar.
Amma djöfull er heiti á verki eftir Ásdísi Thoroddsen sem frumsýnt verður á Smíðaverkstæðinu í janúar. Nýtt íslenskt verk, þar sem skrattinn gæti hitt ömmu sína, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.
Þjóðleikhúsið opnar brúðuleikhús á Litla sviðinu
Á síðasta leikári leysti Kassinn, hið nýja svið Þjóðleikhússins við Lindargötu, Litla sviðið af hólmi sem leiksvið, og í vetur mun Litla sviðið öðlast nýtt hlutverk sem brúðuleikhús.
Vígslusýning hins nýja brúðuleikhúss verður sýning brúðusnillingsins Bernds Ogrodniks, Umbreyting – Ljóð á hreyfingu, sem var frumsýnd á Listahátíð í Reykjavík á liðnu vori. Sýningin hlaut einróma lof gagnrýnenda. Sýningar hefjast 6. október en síðar í vetur er svo von á annarri sýningu úr smiðju Bernds Ogrodniks, í hinu nýja brúðuleikhúsi Þjóðleikhússins.
Frá fyrra leikári
Nokkrar sýningar verða teknar upp aftur frá fyrra leikári og hefur þegar verið minnst á Pétur Gaut og brúðusýninguna
Umbreytingu, en fleira er á dagskránni.
Eldhús eftir máli – Hversdagslegar hryllingssögur eftir Völu Þórsdóttur vakti athygli og umtal á síðasta ári og fékk fjölda tilnefninga til Grímunnar. Sýningin, sem byggð er á sögum Svövu Jakobsdóttur, verður tekin upp aftur og sýnd nokkrum sinnum á Stóra sviði Þjóðleikhússins í september og október. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.
Fagnaður eftir Harold Pinter í leikstjórn Stefáns Jónssonar verður tekið upp að nýju í haust. Margslungið og meistaralega vel skrifað leikrit, þar sem einstakur stíll og óvæntur húmor Nóbelsskáldsins Pinters njóta sín frábærlega vel!
Leitin að jólunum eftir Þorvald Þorsteinsson og Árna Egilsson, árleg jólasýning Þjóðleikhússins fyrir börn, verður sýnd undir lok nóvember og í desember. Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson. Sýningin var frumsýnd á síðasta leikári og hlaut Grímuna sem barnasýning ársins.
Gestasýningar
Gestasýningar hafa verið fastur liður í starfi Þjóðleikhússins í áratugi og svo verður einnig í vetur. Sýningar frá Japan, Póllandi, Svíþjóð, Frakklandi og Bretlandi munu rata á fjalir leikhússins í vetur, auk íslenskra gestasýninga.
Fyrsta sýningin á svið er japönsk gestasýning sem heitir Double Nora. Þar er á ferð áhugaverð leiksýning þar sem tekist á við Brúðuheimili Ibsens með nýstárlegum hætti í hefðbundnum japönskum Noh leikstíl. Sýningin hefur verið sýnd á Norðurlöndum og hlotið afbragðs góða dóma. Sýningar verða 2. og 3. september.
Í byrjun október er svo von á annarri gestasýningu frá Japan en þar er á ferðinni verk Shakespeares, Snegla tamin.
Nánari upplýsingar veita Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri (tinna@leikhusid.is) í síma 585 1200 og Páll Ásgeir Ásgeirsson, kynningarstjóri Þjóðleikhússins (pallasgeir@leikhusid.is) í síma 585 1240.
Upplýsingar um starfsemi fræðsludeildar veitir Vigdís Jakobsdóttir, verkefnastjóri fræðsludeildar Þjóðleikhússins (vigdis@leikhusid.is) í síma 585 1267.
Sjá einnig nánari kynningu á verkefnum leikársins og starfsemi Þjóðleikhússins á heimasíðu leikhússins.