Samfara ársfundi Bandalagsins á Hallormstað 9.-12. maí var haldin einþáttungahátíð. Lárus Vilhjálmsson segir sitt álit á þeim sýningum sem þar var boðið upp á.

 Hallormstaður er einn af þeim stöðum á Íslandi þar sem manni finnst maður vera í útlöndum. Það er svo mikið af trjám að maður sér varla fjöllin. Á sumrin er víst það heitt að fólk gengur um bert að ofan og þarna verður lognið svo mikið að manni líður eins og geimfara í lofttómi. Þetta gerir það að verkum að leiklist framin á slíkum stað verður um leið eitthvað framandi og það liggur við að maður fari að rabba við alla á dönsku eða ensku og jafnvel búast við einhverju finnsku exótísku dansverki ala Kaurismaki úti í skógi.
 Enn því var nú ekki að heilsa þarna í skógarkrikanum á Hallormstað. Flest verkin sem sett voru á svið voru svo rammíslensk að Dario Fo og Ayckburn voru alveg eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Og það var nú bara ansi skemmtilegt. Það er ánægjulegt að sjá hversu margir leggja sig við skriftirnar nú til dags þrátt fyrir allt.
 

Ég missti því miður af fyrsta verkinu á hátíðinni sem krakkarnir á Hallormstað fluttu á fimmtudagskvöldinu en fékk þó beint í æð það rosalegusta útvarpsleikrit sem ég hef heyrt í rútunni á leiðinni á Hallormstað. Í þessu leikriti ræddu tveir þáttastjórnendur við ólansmann sem hafði stolið fullt af peningum, svikið og prettað. Hann reyndi eftir fremsta megni að sannfæra stjórnendurna um að þeir og aðrir fjölmiðlungar væru hinir raunverulegu skúrkar og hann bara hinn týpíski íslendingur sem væri að bjarga sér eftir fremsta megni en þeir vildu ekki trúa því og reyndu, líkt og kaþólskir prestar, að fá hann til að iðrast. Leikritið endaði síðan með ósköpum þar sem ólánsmaðurinn jós úr sér svívirðingum meðan þáttastjórnandinn iðraðist. Þetta var mikið drama en þó þótti mér bera á ofleik og það hefði mátt fínstilla raddbeitingu og tungutak.
 

Fyrsta verkið sem ég sá síðan á Hallormstað var sannkölluð himnasending eftir dramað í rútunni en það var Sólarhringur eftir vin minn Steina frá Hornafirði. Þarna sameinaðist í eitt,  tónlist, samspil ljóss, lita og skugga og einhver ólýsanleg náttúrustemmning sem setti mann undir eins í jógastellingu kyrrjandi omm í þögn hugans. Það sem mætti setja út á var frekar slæmur hljómburður enda erfitt um vik í víðáttum íþróttasalarins og eins hefði tjaldið þar sem ljósin léku listir sínar mátt vera nær áhorfendum. En flott framtak hjá Steina.
 

Eftir góðan svefn og staðgóðan morgunverð að föstudagsmorgninum upphófst leiklistarveisla sem stóð þvi nær sleitulaust til kvölds.
 Fyrst á sviðið var verk eftir Guðmund nokkurn Þorvaldsson frá Vestmannaeyjum og var það sýnt í nafni Leikfélagsins Sýnar eða Sýna og hét það "Hverjir voru hvar". Þetta hugnæma verk minnti um margt á verk Becketts "Beðið eftir Godot" og var illskiljanlegt nema fyrir innvígða absúrdista. Þó mátti með nokkru hugarflugi sjá út allskyns heimsendaspár eða tilvísanir í virkjunarmál á Austfjörðum ef djúpt var rýnt í verkið. Mér fannst þó sýningin nokkuð smellin og haganlega samsett af leikstjóranum Ármanni Guðmundssyni. Leikararnir sýndu fína takta þar sem höfundurinn Guðmundur og krítikerinn Þorgeir drógu upp úr pússi sínu frekar brjóstumkennanlega karaktera meðan Hrund fann trúðinn í sér og létti öllum tilveruna. Senuþjófarnir voru þó Hörður og Ingólfur sem túlkuðu eftirminnilega Mozart hinn heilalausa og Dieter, slátrarann frá Ausvits. Smellin sýning en vantaði kannski tilfinnanlega heilann.
 

Næstir á svið voru tveir Grímnismenn frá Stykkishólmi með Meindýr eftir Bjarna Guðmarsson úr Kópavogi sunnan Reykjavíkur. Þessi mini farsi Bjarna er oft meinfyndin en kallar á nokkuð ákveðna leikstjórnartauma. Þeir Jóhann og Guðmundur eru lunknir leikarar og áttu oft ágæta spretti en vantaði tilfinnanlega tilsögn agaðs leikstjóra. Fyrir vikið varð þátturinn frekar leiðinlegur, fór á stundum út í frekar ráðleysileg hlaup út um allt svið og þegar í óefni var komið gripu leikararnir til örþrifaráðs hins ráðvillta leikara, ofleiks. Þetta var gott verk sem sárlega þarfnaðist leikstjóra.
 

Næsta verk á dagskránni var sannkallað náttúruverk, nefndist Maðkurinn eftir Halldór Laxness og var sviðsett á grænni grund við Hústjórnarskólann á Hallormsstað með skóginn í bakgrunni. Þetta verk sem er upphafskafli Barns Náttúrunnar, fyrstu skáldsögu Halldórs hefur til að bera einstaka einlægni og er afar vel fallið til leikrænnar tjáningar ólíkt flestum leikritum Halldórs sem eru afar tilgerðarleg og leiðinleg. Vígþór Zóphoníasarson, hinn ungi nestor Leikfélags Fljótdalshéraðs, fór afar vel með þennan stutta leikþátt og lék hann af miklu öryggi og fítonskrafti. Sviðssetningin var fumlaus og falleg og eina sem ég saknaði var að sjá Vígþór ganga í hvarf í lokin.
 

Dario Fo var fyrsta erlenda verkið á svið og hét það "Samtal fyrir einn". Þetta er eitt af mörgum verkum Fo frá sjöunda áratugnum sem fjallar hlutskipti kvenna á karlkúgunartímum og er þetta nú eitt af hans síðri verkum að mínu mati og frekar bit og náttúrulaust í nútímanum þar sem konur ráða á bestu bæjum. En Bjarney Lúðvíksdóttir leikstjóri frá Leikfélagi Mosfellssveitar snýr á þessa annkanta verksins á snilldarlegan hátt. Hún lætur karlmann leika konuna í verkinu og í frábærum meðförum Hjalta Kristjánssonar á kyn eða klæðskiptingnum stekkur verkið í nýjar hæðir og öðlast nýja vídd. Manni varð allt í einu ekki sama um hlutskipti hins undirokaða minnihlutahóps og samfélagsrýni Fo hittir í mark. Það eina sem fór í taugarnar á mér var leikur Grétars Jónssonar sem var afar uppblásin, óerótískur og einhvern veginn á skjön við annað í verkinu. Það hefði mátt hleypa úr honum loftinu fyrir sýningu.   
 

Næsta verk var hitt erlenda verkið á hátíðinni, Niðurtalningin eftir Alan Ayckburn. Þetta er skemmtilegur þáttur og nokkuð vel útfærður hjá Freyvangsleikhúsinu og leikstjóranum Höllu. Leikur þeirra Stefáns og Hjördísar var skemmtilegur, sérstaklega þegar þau sögðu ekki neitt. Þessi þáttur hefði þó grætt mikið af lengri æfingatíma. Það var til baga að þeir sem fluttu raddirnar lásu textann af handriti enda heyrðist það nokkuð. Það hefði líka verið betra ef raddirnar hefðu komið úr hátalarakerfi. En annars var þetta fyndin þáttur og Höllu til sóma.
 

Leikhópurinn Vera og Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar sýndi okkur þátt eftir Benóný Ægisson sem nefnist Gagnsætt Fólk. Þessi sýning kom mér einna mest á óvart á hátíðinni og sýnir manni best hvaða fordóma maður getur haft gagnvart leik unglinga og starfi lítilla leikhópa. Maður bjóst nefnilega ekki við neinu sérstöku. En þrátt fyrir annmarka verksins sem eins og svo mörg verk Benónýs fellur í gryfju hinna endalausu klisja eftir ágætt samtal í byrjun stóð leikhópurinn sig frábærlega. Það var alveg unun að sjá hversu agaður og samstilltur þessi unglingahópur frá Fáskrúðsfirði var. Samleikur var mjög góður, gervi skemmtileg og framsögnin var til fyrimyndar. Og það er augljóst nýr stórleikari er að fæðast í Kjartani Svan.  Húrra fyrir leikhópnum Veru og leikstjóranum Valdimar Mássyni.
 

Ástir í viðjum efnafræðinnar eftir Jón Gunnar Axelsson var alger sóun á tíma áhorfenda og leitt að sjá ágæta leikara úr Leikfélagi Fljótsdalshéraðs sóa hæfileikum sínum í svona moð. Ég gat ekki séð að það væri upphaf eða endir á þessum óskapnaði og þegar við fréttum að leikstjórinn hefði leikstýrt þessu í gegnum síma með einni eða tvemur setningum þá sá maður að metnaðurinn var algerlega í lágmarki á þeim bæ. Svona sýningar ættu náttúrulega ekki að sjást á hátíðum sem þessum. Og hana nú.
 

Mér er nokkuð erfitt að fjalla um tilraunakennda sýningu Júlíusar Júlíussonar Dalvíkings á vegum Sýna sem hann kallaði Hann þar sem ég tók þátt í henni. Ég verð þó að segja að það var afar gaman á taka þátt í þessu og sérstaklega að sjá hverjir léku með mér mínútu fyrir sýningu.
 

Ein af þremur kvöldsýningum þetta föstudagskvöld var Söngleikurinn Hold og Hár eftir Ólaf nokkurn Rósinkrans ala Hannes Örn Blandon. Þetta er stykki sem er nokkuð dæmigert fyrir Freyvangsleikhúsið, ærsl, sprell og söngur í íslenskum revíustíl. Þarna er gert grín að áhugaleikurum með leikstjórann að sunnan í broddi fylkingar, áhuggjufulla formanninn, kynóða gjaldkerann, dularfulla fylgihnöttinn og óreyndu húsfreyjuna. Þetta var nokkuð brokkgeng sýning hjá þeim Freyvöngum og hefði þurft nokkurn æfingatíma auk styrkrar aðstoðar leikstjóra. Þó voru nokkrir góðir sprettir hjá leikurunum og rappið var ansi magnað. Innhlaup þýðandans í lokin var  nokkuð á skjön við verkið en lagið var skemmtilegt. Prýðileg hugmynd að leikverki hjá þeim á Freyvangi en hefði þurft yfirlesara, leikstjóra og kannski pínkulítið meiri andakt.
 

Síðasta sýningin á hátíðinni var, Dagurinn, dómsdagsprédikun Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur í flutningi Hugleiks. Ég held að boðskapur verksins sé nú ansi langt frá hugmyndum kristinna manna um hinn hinsta dag og Sigga Lára gefur mannskepnunni ekki mikinn séns í þessu verki og lætur Guð sparka honum út í hinstu myrkur í lokin. Ég leyfi mér nú samt að vona að hún hafi nú meiri trú á mannskepnunni og að þetta hafi einfaldlega verið stílæfing. Að þessu sögðu verð ég að segja að þetta verk er afar vel skrifað og uppbygging .þess hnitmiðuð og kraftmikil. Uppsetning Sesselju var afar flott og áhrifamikil og notkun hennar á ljósi og skugga rammaði verkið vel. Leikur Huldu og Hrefnu var á heimsmælikvarða og maður verður nú bara montin af því að þekkja þessar konur. Þessi sýning var hápunktur hátíðarinnar að mínu mati og sýnir afar vel að áhugaleikhúsið á Íslandi stendur atvinnuleikhúsflórunni ekkert að baki nema síður sé.
 Sjáumst á Leiklistarhátíð 2005.

Lárus Vilhjálmsson