Núna um helgina mun gestum Tjarnarbíós gefast kostur á að ræða við leikara og aðstandendur sýninga um innihald og upplifun þeirra af verkinu. Um ræðir leikhússpjall um Lúkas laugardagskvöldið 8. febrúar og um Eldklerkinn sunnudagskvöldið 9. febrúar.
Sýningarnar hefjast kl. 20, en verður lokið um 21:30. Þá hefst leikhússpjallið. Leikhússpjall Tjarnarbíó er kjörið tækifæri til eiga notalega kvöldstund sem hefst á leiksýningu, því næst góðar umræður við aðstandendur sýningarinnar, og í framhaldinu er kaffihús Tjarnarbíó opið og góð tilboð í gangi.
Eftir sýningu á Lúkasi munu Stefán Hallur Stefánsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir og Friðrik Friðriksson, sem fara með hlutverk í leikritinu, og Marta Nordal, leikstjóri, setjast niður á kaffihúsi Tjarnarbíó og ræða við áhorfendur og aðra gesti um sýninguna. Þau munu svara spurningum, sem áhorfendur kunna að hafa, og segja frá sinni upplifun af verkinu.
Sunnudagskvöldið verður hið sama upp á teningnum og þá munu Pétur Eggerz, leikari í Eldklerkinum, og Thelma Björnsdóttir, búningahönnuður, ræða við gesti um Eldklerkinn.
Sérstök tilboð verða í boði á barnum meðan á leikhússpjalli stendur, en það mun standa u.þ.b. milli 21:30 og 22:30.
Frekari upplýsingar í síma 527-2100 og á tjarnarbio.is.
Leikhússpjall í Tjarnarbíói 8. og 9. febrúar