Leikritun
Á þessu námskeiði gefst áhugasömum kostur á að kynnast nokkrum grundvallaratriðum leikhúss og leikritunar eins og persónusköpun, dramatískri framvindu og samtalstækni. Þátttakendur námskeiðsins skapa og skrifa leiktexta í tímum undir leiðsögn kennara. Stefnt er að því að þátttakendur skrifi um 10-15 mín. langt verk sem kynnt verður í lok námskeiðs.
Kennari: Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur og leikstjóri
Skráningarfrestur til 8. febrúar
Vinnustofa í leikritun
Ertu með hugmynd að leikriti eða leiktexta sem þig langar til að vinna að? Á framhaldsnámskeiði í leikritun fá þátttakendur tækifæri til að þróa og skrifa leikhandrit sem ætlað er fyrir leiksvið eða útvarp. Tveir leikarar og leikstjóri vinna með hópnum og hver þátttakandi fær tækifæri til að heyra og sjá hvernig leiktextinn virkar í meðförum leikarans. Unnið verður út frá spunatækni leikarans og þannig varpað ljósi á mismunandi möguleika leiktextans. Námskeiðið byggir á virkri þátttöku og heimavinnu nemenda. Námskeiðið er ætlað þeim sem áður hafa sótt byrjendanámskeið í leikritun. Takmarkaður fjöldi þátttakenda.
Kennari: Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur og leikstjóri
Skráningarfrestur til 28. mars
Nánari lýsing og skráning
Úr heimi leiksviðslistanna
Er leiklistin sprottin upp úr helgisiðum og iðkun trúarbragða? Hvers vegna er kór í grískum harmleikjum? Hvernig gat kaþólska miðaldakirkjan bæði verið á móti leiklistinni og með henni? Hvers vegna voru engar leikmyndir í leikhúsi Shakespeares? Hvaðan koma fjarvíddarleiksviðið og leiksviðsramminn? Hver er hinn dularfulli Harlekin? Fóru átjándu aldar menn aðallega í leikhúsið til að gráta? Hví hefur nítjánda öldin verið kölluð öld hinna miklu leikara? Þetta eru dæmi um nokkrar þeirra spurninga sem upp koma þegar við hverfum á vit liðinna kynslóða leikara, leikskálda – og áhorfenda.
Á námskeiðinu verður leitast við að kynna helstu leikform sögunnar og stíltegundir með hjálp mynda og uppdrátta af leiksviðsgerðum, leikurum í hlutverkum og ýmsum öðrum gögnum sem leiklistarsagan byggir á tilveru sína sem fræðigrein. Stundum er sagt að leiklistin sé list andartaksins, deyi um leið og hún fæðist, og því verði fátt sagt með vissu um það sem gerðist í leikhúsum fyrri tíðar. Markmið námskeiðsins er ekki síst að sýna fram á að það er mikill misskilningur. Leiklistarsagan getur veitt mikilsverða innsýn í hugskot fyrri tíðar manna, auk þess sem hún hefur oft orðið leikhúsi síðari tíma frjósöm uppspretta hugmynda og nýrra leiða. Kennari: Jón Viðar Jónsson, fil.dr., leiklistarfræðingur Skráningarfrestur til 22. mars
{mos_fb_discuss:3}