Kómedíuleikhúsið, atvinnuleikhús Vestfjarða, hefur komið á koppinn nýju hlaðvarpi um leiklist og leikhús. Hlaðvarpið nefnist Leikhúsmál og er nafn þáttarins nefnt eftir samnefndu tímariti er leikarinn Haraldur Björnsson gaf út um miðja síðustu öld. Umsjónarmaður Leikhúsmála er Elfar Logi Hannesson, leikari Kómedíuleikhússins og upptakari er Marsibil G. kristjánsdóttir. Leikhúsmál er vikulegur hlaðvarpsþáttur en hver þáttur er frumfluttur á fimmtudegi og er síðan aðgengilegur á öllum streymisveitum. Í Leikhúsmálum er fjallað um leikhúsið á breiðum grunni. Þrír þættir eru komnir í loftið svo nú þegar er hægt að byrja að hlusta á Leikhúsmál.
Í fyrsta þætti Leikhúsmála er stutt kynning á hlaðvarpinu auk þess sem fjallað er um fyrsta íslenska leiklistartímaritið, Leikhúsmál. Í öðrum þætti er fjallað um ævisögur íslenskra leikara og í þriðja þætti eru það leikskrár sem eiga sviðið.
Leikhúsmál eru tekin upp í nýstandsettu hljóðveri Kómedíuleikhússins sem er í leiklistarmiðstöð leikhússins á leikhúseyrinni, Þingeyri.
Hér má hlusta á Leikhúsmál.