Leikfélagið Sýnir frumsýnir leikverkið Vakandi manns draumur næstkomandi miðvikudag, þann 1. ágúst klukkan 20 í Öskjuhlíð. Verkið er spunaverk unnið úr þjóðsögum um álfa og huldufólk.

Leikfélagið Sýnir er áhugaleikfélag sem starfar á landsvísu og á það einmitt 10 ára afmæli nú í ár. Félagið hefur sett upp útileiksýningar á hverju sumri síðan 1998. Leikstjórar eru Hrund Ólafsdóttir og Hörður Skúli Daníelsson en tónlistarstjóri er Helga Ragnarsdóttir, tónsmíðanemi við LHÍ.

vakandimanns.gifVerkið er í tveim þáttum, Hrund leikstýrir dramatískri sögu af sambandi stúlku við huldumann, sem nefnist "Og hefi ég þann sopa sætastan sopið" og er unninn er upp úr nokkrum útgáfum af þjóðsögu sem heitir Selmatseljan. Hörður leikstýrir svo kíminni sögu af samskiptum tveggja drengja við huldukonur, sem byggð er á þjóðsögunni um bóndasoninn og prestssoninn.

Sem fyrr segir verður verkið frumsýnt í Öskjuhlíð 1. ágúst, en svo leggur hópurinn land undir fót og sýnir á hátíðinni Einni með öllu á Akureyri, á Hamarkotstúni klukkan 17.30, laugardaginn 4. ágúst, auk þess að vera með atriði á lokaskemmtun hátíðarinnar á íþróttavellinum á sunnudagskvöldið. Þá verður sýnt á Fiskideginum mikla á Dalvík þann 11. ágúst.

{mos_fb_discuss:2}