Föstudaginn 11. janúar frumsýnir Leikfélag Selfoss gamanleikritið Með táning í tölvunni eftir Ray Cooney. Leikstjóri er Jón Stefán Kristjánsson sem einnig þýddi verkið. Þetta er bráðskemmtilegur og hress farsi sem mun kitla hláturtaugarnar svo um munar, sjálfstætt framhald af Með vífið í lúkunum sem leikfélagið setti upp árið 1999 en það er sú sýningin sem besta aðsókn hefur fengið í litla leikhúsinu við Sigtún.
Með vífið í lúkunum fjallaði um hvernig leigubílstjóranum John Smith tókst að lifa tvöföldu lífi með tveimur eiginkonum. Með táning í tölvunni gerist 18 árum síðar þegar dóttir hans úr öðru hjónabandinu og sonur hans úr hinu kynnast á netinu og byrja að draga sig saman. Þessu reynir faðir þeirra að afstýra með öllum tiltækum ráðum með dyggri aðstoð vinar síns Stanleys.
Leikfélag Selfoss heldur upp á 50 ára afmæli í ár en félagið var stofnað 9. janúar 1958. Og þvi viðeigandi að fagna afmælinu með hressandi gamnleik í afmælisvikunni. Önnur sýning verður sunnudaginn 13. jan. og verður það sérstök hátíðarsýning. Næstu sýningar verða fimmtudaginn 17. jan. og föstudaginn 18 jan.
Hægt er að panta miða í síma 482-2787 og er miðaverð 2000 kr. Allar sýningar hefjast klukkan 20:30 í litla leikhúsinu við Sigtún.