Kvikmyndafélagið Pegasus hefur verið á Sauðárkróki síðustu daga við æfingar og undirbúning vegna kvikmyndarinnar Roklands, sem byggir á samnefndri skáldsögu Hallgríms Helgasonar. Leikfélag Sauðárkróks hefur verið framleiðendum myndarinnar innanhandar og lagt til leikara í ýmis aukahlutverk. Það var éljagangur og norðangarri sem mætti leikurum og kvikmyndafólki á Nöfum ofan við Krókinn um hádegisbil á mánudag þegar fram fóru æfingar vegna jarðarfarar móður aðalsögupersónunnar Bödda, sem Ólafur Darri leikur.
Leikfélag Sauðárkróks, sem heldur uppá 120 ára afmæli sitt í ár, útvegaði til jarðarfararinnar allnokkurn fjölda eldri leikara. Nokkrir þeirra leikara sem þar voru eiga að baki áratuga leikferil með LS, en hafa lítið leikið síðustu misserin. Þeir stíga nú aftur á svið eftir alllangt hlé, en auk þess að leika í Roklandi munu nokkur þeirra leika í afmælisleikriti LS frá okkar fyrstu kynnum – 120 ár í sögu leikfélags. Það er Jón Ormar Ormsson sem leikstýrir leikritinu, sem verður frumýnt á Sæluviku 26. apríl nk.
Á myndinni eru (frá vinstri til hægri): Kristín Helgadóttir, Halldóra Helgadóttir, Ingimar Jóhannsson, Edda Vilhelmsdóttir, séra Sigríður Gunnarsdóttir, Elsa María Valdimarsdóttir, Elsa Jónsdóttir, Sigurveig Þormóðsdóttir formaður LS, Hulda Jónsdóttir og Jóhanna Björnsdóttir, en fyrir framan eru þeir gárungar Hilmir Jóhannesson og Hafsteinn Hannesson.