Það verður valinn maður í hveru rúmi þegar verkið Hetjur eftir Gerald Sibleyras verður frumsýnt næstkomandi föstudag, þann 1. Febrúar á Nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu. Verkið er grátbroslegt og fjallar um vinskap þriggja fyrrverandi hermanna úr fyrri heimsstyrjöld sem dvelja saman á elliheimili.
Auk baráttu við valdamikla forstöðukonu hælisins reyna gömlu stríðshetjurnar að drepa tímann sem líður náttúrulega af sjálfsdáðum. Óttinn við að endalokin séu ískyggilega nærri angrar þá ljóst og leynt. Þyturinn í laufum trjánna vekur mep þeim forvitni og lífsþorsta. Þá langar að leita á vit ævintýranna en hrakandi heilsa kemur í veg fyrir að þeir komist af stað.
Verkið, í þýðingu Toms Stoppard, vann til Laurence Olivier-verðlaunanna fyrir The best new comedy, þegar það var sett upp í West End árið 2006. Með hlutverk félaganna þriggja fara þeir Guðmundur Ólafsson, Sigurður Skúlason.
Sigurður Skúlason útskrifaðist frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1967 og hefur leikið við Þjóðleikhúsið hátt á annað hundrað hlutverk. Hann var einungis tíu ára þegar hann steig sín fyrstu spor á leiksviði. Sigurður hefur á gæfuríkum ferli tekist á við fjölda verkefna í leikhúsi, kvikmyndum og útvarpi og verið þar ýmist í hlutverki dagskrárgerðarmanns, leikstjóra eða leikara. Meðal þekktra kvikmynda sem hann hefur leikið í má nefna Mávahlátur, Hafið, Gemsar (en fyrir tvær síðastnefndu hlaut hann Edduverðlaunin 2002), Strákarnir okkar, Börn og Síðasti bærinn.
Theodór Júlíusson er menntaður leikari frá Drama Studio í London. Hann var fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Akureyrar frá 1978 til 1989, en lék sitt fyrsta hlutverk hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1988 og hefur síðan leikið yfir hátt í 50 hlutverk með félaginu. Theodór hefur leikstýrt fjölda sýninga hjá áhugaleikfélögum og einnig hjá Leikfélagi Akureyrar. Hann hefur leikið í fjölda útvarpsleikrita og sjónvarps- og kvikmynda, og má þar nefna Grím í Ikingut, pabbann í Englum alheimsins. Hann fór með hlutverk í mynd Hal Hartleys, Monster, Mávahlátri og með Vesturport í kvikmyndinni Börn.
Guðmundur Ólafsson starfaði fyrst með Leikfélagi Reykjavíkur árið 1984, þegar hann lék lögregluþjón og njósnara í Félegt fés. Síðan hefur hann leikið tæplega fjörutíu hlutverk hjá félaginu, m.a. Gretti í Djöflaeyjunni, Jón Hreggviðsson í Hinu ljósa mani og Tríletskí í Platonoff. Guðmundur var höfundur og leikari í einleiknum Tenórinn sem sýndur var við frábærar viðtökur fyrst i Iðnó og þá á Litla sviði Borgarleikhússins. Guðmundur starfar einnig sem rithöfundur og hefur m.a. fengið Íslensku barnabókaverðlaunin tvisvar sinnum. Þú getur séð Guðmund í söngleiknum Gretti og Viltu finna milljón? á Stóra sviðinu og í sýningunni Hetjur á Nýja sviðinu.
Hafliði Arngrímsson stundaði nám í leiklistarfræðum í Vínarborg og í Stokkhólmi 1976 til 1983. Samhliða gekk hann í leikstjórnardeild leiklistarskóla austurríska ríkisins, Max-Reunhardt-Seminar veturinn 1978 til 1979. Síðan hefur hann starfað sem leiklistarráðgjafi, aðstoðarleikstjóri, kennari, sviðsmaður, hvíslari, sýningarstjóri og ýmislegt. Hann stofnaði leikhúsið Frú Emilíu ásamt Guðjóni Pedersen 1986 og vann við öll verkefni leikhússins og hélt utan um starfsemi þess. Hann kenndi leiklistarsögu og fleira við Leiklistarskóla Íslands 1985 til 2000 og einnig við Leiklistardeild Listaháskóla Íslands 2004. Hafliði var fastráðinn leiklistarráðunautur Leikfélags Reykjavíkur 1996 til 1999 og 2000 til hausts 2003. Hafliði leikstýrði Brimi, eftir Jón Atla Jónasson, sem Vesturport frumsýndi í Vestmannaeyjum 2003 en leikritið hlaut Grímuverðlaunin 2004 sem besta leikritið og verðlaun sem besta sýning á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni New Drama í Moskvu 2005.
Þýðing: Pétur Gunnarsson
Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen
Ljós:Kári Gíslason
Leikmynd og búningar: Jürgen Höth og Brit Daldrop
Leikstjóri: Hafliði Arngrímsson