ImageLaugardaginn 25. mars kl. 17:00 frumsýnir Leikfélag Hafnarfjarðar barna- og fjölskylduleikritið Hodja frá Pjort sem byggt er á sögu Ole Lund Kirkegaard. Leikstjóri er Ármann Guðmundsson en leikgerðin eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur og Ingvar Bjarnason.

Hodja er ungur strákur frá smábænum Pjort í Búlgóslavíu. Hann dreymir um að ferðast og skoða heiminn en gengur illa að láta þann draum sinn rætast þrátt fyrir einlægan vilja. Einn daginn kynnist hann fjörgömlum teppavefara sem lánar honum fljúgandi töfrateppi. Hodja flýgur á því af stað í langþráð ferðalag til fjarlægra landa og lendir í fjölmörgum ævintýrum, hittir meðal annarra skúrkinn Rottuna og spikfeitan soldán sem hefur aðeins tvö áhugamál, að borða og höggva af fólki höfuðið.

Image Hönnun leikmyndar er í höndum Finnboga Erlendssonar og Ingvars Bjarnasonar.  Dýrleif Jónsdóttir sá um hönnun búninga og gerfa og leikmuni. Ljósahönnuður er Kjartan Þórisson og tónlistarstjóri er Snæbjörn Ragnarsson. Leikritið er sýnt í nýjum húsakynnum félagsins í gamla Lækjarskóla og er gengið inn um aðalinngang að framanverðu.  

Sýningin verður eins og fyrr segir frumsýnd laugardaginn 25. mars kl 17:00 en næstu sýningar eru sunnudaginn 26. mars, laugardaginn 1. apríl, laugardaginn 8 apríl og sunnudaginn 9. apríl. klukkan 14:00 alla dagana.

Upplýsingar um sýningar og miða fást í síma 848-0475. Athugið að frítt er fyrir Hafnfirðinga á 3. sýningu 1. apríl samkvæmt venju, á meðan húsrúm leyfir.