Sýning Leikfélags Fljótsdalshéraðs, Listin að lifa, eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar var valin athyglisverðasta áhugasýning leikársins sem brátt er á enda. Samkvæmt venju er aðstandendum boðið að sýna verkið í Þjóðleikhúsinu og verður sýnt í Kúlunni 7. júní næstkomandi kl. 20.00. Gert er ráð fyrir aukasýningu þann 8. ef það verður uppselt.

Miðapantanir eru hafnar hér.

Verkið var skrifað fyrir félagið og sett upp í tilefni að 40 ára afmæli þess, sem var í ágúst síðastlðnum. Það var frumsýnt í nóvember, en sýnt var í félagsheimilinu á Iðavöllum.

Í umsögn dómnefndar um sýninguna segir meðal annars:

Í Listinni að lifa fer saman góð tilfinning höfundar fyrir því sem gerir texta áhugaverðan til flutnings á leiksviði sem og skapandi og frumleg úrvinnsla leikstjórans á efnivið höfundar. Leikritið lýsir lífi þriggja einstaklinga nánast frá vöggu til grafar og er margslungið í einfaldleika sínum.

Höfundur fjallar m.a.um ást og vináttu, framhjáhald og svik og gefur okkur leikræna mynd af þeim línudansi sem lífið stundum er. Leikendurnir þrír skila þessum línudansi af sannfæringu og skapa þannig eftirminnilega sýningu. Í uppfærslunni hefur leikstjórinn unnið meðvitað með leikmynd, liti, ljós og hljóð, allt til að ná fram áhrifum leiktextans og sérkennum persónanna í verkinu.

{mos_fb_discuss:2}