Föstudaginn 22. október frumsýnir Leikfélagið Skagaleikflokkurinn Fiska á þurru landi eftir Árna Ibsen í leikstjórn Þrastar Guðbjartssonar. Sýningin hefst kl. 20 og er sýnt í Arctic-húsinu, Vesturgötu 119. Þetta er verk með undirtitilinn ólíkindagamanleikur og leikstjórinn fer skemmtilega leið í uppsetningunni, þar sem dansað er á línunni milli raunveruleikans og fáranleikans, en einnig er sótt í smiðju trúðleikara.
Næstu sýningar verða:
2. sýn. sunnudaginn 24. okt.
3. sýn. þriðjudaginn 26. okt.
4. sýn. föstudaginn 29. okt.
5. sýn. sunnudaginn 31. okt.
6. sýn. þriðjudaginn 2. nóv
Þröstur Guðbjartsson leikstjóri hefur unnið með áhugaleik-húsum víða um land með dæmafáum árangri. Honum er einstaklega lagið að ná því besta út úr misreyndum áhugaleikurum og þeim aðstæðum sem hann vinnur við á hverjum tíma. Það er því mikill fengur fyrir Skagaleikflokkinn að fá að njóta reynslu hans og hæfileika í verkinu Fiskar á þurru landi. Minna má Skagamenn á að hann leikstýrði ógleymanlegum uppfærslum FVA á Blóðbræðrum, Láttu ekki deigan síga Guðmundur og Þrettándakvöldi. Þar lágu leiðir hans og Guðmundar Claxtons og Gunnars Sturlu saman á sínum tíma og árangur þess samstarfs lofar engu nema góðu í Fiskum á þurru landi.
Þórdís Ingibjartsdóttir sem leikur Emmu er Skagamönnum að góðu kunn fyrir margháttað framlag sitt til leiklistar og tengdrar menningar á Akranesi. Starfsferill hennar með Skagaleikflokknum spannar áratugi og hlutverk í uppfærslum eru æði mörg og margvísleg. Má þar nefna leikritin Mörk, Kvásarvalsinn, Ástkonur og elskhugar, Tívolí, Járnhausinn, Hlutskipti og síðast Salka Valka , en hún lék burðarhlutverkið í því magnaða stykki.
Gunnar Sturla Hervarsson sem leikur Guðmund er fæddur og uppalinn á Akranesi. Gunnar Sturla hefur tekið þátt í nokkrum uppsetningum á vegum Skagaleikflokksins, en hann var með í Tívolí sem sýnt var árið 2001 og í Lifðu; yfir dauðans haf, sem sett var upp ári síðar. Síðustu ár hefur Gunnar tekið þátt í fjölmörgum uppfærslum á vegum Grundaskóla og FVA, sem höfundur og leikstjóri.
Hafdís Bergsdóttir leikur Gúu. Hafdís fæddist á Akureyri árið 1983 en ólst upp á Grundarfirði og flutti á Akranes átján ára gömul. Hún tók þátt í nemendasýningum í grunnskóla og var með í uppfærslu FVA á Rocky Horror árið 2000. Því má segja að þetta sé frumraun hennar í stóru hlutverki á leiksviði.
Guðmundur Claxton sem leikur Knút er ekki að stíga sín fyrstu spor á leiksviði í Fiskum á þurru landi. Reynsla hans af sviði er margháttuð og má þar nefna leikritin Blóðbræður, Láttu ekki deigan síga Guðmundur og Þrettándakvöld í FVA. Einnig lék hann með Skagaleikflokknum í Gosa, Alltaf má fá annað skip og Hunangsflugum.
Miðapantanir eru í síma 847-7742 (Elín Ólöf) á milli kl. 17 og 19 á sýningardögum
{mos_fb_discuss:2}