Hvernig myndurðu bregðast við  ef að gesturinn á næsta borði við þig á veitingastað fengi að borða matinn þinn? Líklega yrðir þú hissa, síðan reiður, og síðan myndirðu líklega hringja á lögguna. Það er einmitt það sem gerist í leikritinu Lambi fyrir tvo sem frumsýnt verður á Gallerý Bar 46, Hverfisgötu 46 á laugardaginn kemur. Það er Leikfélagið Peðið sem setur upp í leikstjórn Lísu Pálsdóttur útvarpskonu, en verkið er eftir Jón Benjamín Einarsson, sem segja má að sé hirðskáld leikfélagsins.

Peðið hefur sérhæft sig í að leika á börum, en það var stofnað á Grand Rokk við Smiðjustíg 2006 og hefur sett upp einar 14 sýningar. Lamb fyrir tvo var fyrsta uppsetningin, en var aðeins sýnt einu sinni á Menningarhátíð Grand Rokks 2005, því þótti full ástæða að taka verkið upp núna og sýna um páskana.

Hvernig málum lyktar og hvort lögreglan er réttlát og leysi málin verður ekki upplýst hér áhugasömum er bent á að sýningar verða laugardaginn 31. mars kl. 17 og sunnudag 1. apríl kl. 17 og síðan á skírdag, föstudaginn langa og laugardaginn 7. apríl, alltaf kl. 1700 og er sýningin um hálfa klukkustund í flutningi.

{mos_fb_discuss:2}