Á föstudaginn langa, 22. apríl kl.20.00, frumsýnir Leikfélagið Peðið nýjan íslenskan gamanleik sem hlotið hefur nafnið Hlátur. Handritið er eftir Kristinn Kristjánsson, Jón Benjamín Einarsson og Guðjón Sigvaldason í samvinnu við leikhópinn. Guðjón er jafnframt leikstjóri sýningarinnar. Sýnt verður í Gallerí Bar 46, við Hverfisgötu 46.

Leikfélagið Peðið setti fyrir nokkrum árum í gang leikritasamkeppni, eða öllu heldur samkeppni um drög að leikriti, sem síðan skyldi útfæra / vinna með höfundi og leikstjóra og skyldi sýnt á vegum leikfélagsins. Nokkur drög bárust í keppnina og dómnefnd valdi drög Kristins Kristjánssonar, sem þau áhugaverðustu og var ætlunin að vinna meira úr þeim. Kristni gafst því miður ekki færi á að vinna nánar með sín drög, því hann féll frá stuttu síðar.

Leikritið Hlátur gerist á hláturnámskeiði hjá tækifærisgúrúinum og lífsspekingnum Freyju Freysdóttur, en hún var frammámaður fyrir hrun, og af vorkunnsemi við landann þá hefur hún tekið að sér að koma honum í stuð eftirkreppunnar. Því fáum við gamansama innsýn í líf hennar og þeirra einstaklinga sem námskeið hennar sækja, sem og kennslu í því hvernig, hvenær og að hverju við eigum að hlægja.

Nú á vetrardögum drógum við félagar í Peðinu þessi drög hans fram, og ákváðum að dusta rykið af þeim og að koma þeim á svið, engu að síður. Ákvörðun var tekin hjá stjórn félagsins að fela Guðjóni Sigvaldasyni leikstjóra og höfuðskáldi leikfélagsins Jóni Benjamín Einarssyni, sem báðir voru góðkunningjar Kristins að vinna með þau til að gera úr þeim sýningu.

Drög Kristins heitins voru mjög heilsteipt, og eru þau þungamiðjan í verkinu en það er svo að hluta til unnið út frá spuna með grunn Kristins að leiðarljósi, sem og styrktartexta unnum af Jóni Benjamín, til að fá meira kjöt á beinin.

Sýningar verða:
Frumsýning – Föstudaginn langa, 22. apríl kl 20.00
2. sýn. – Páskadag, 24. apríl kl 17.00
3. sýn. – 2. í Páskum, 25. apríl kl 17.00
4. sýn. – fimmtudaginn 28. apríl kl 20.00
5 sýn. – laugardaginn 30. apríl kl 17.00
6 sýn. – sunnudaginn 1. maí kl 17.00

Miða verður hægt að nálgast í gegn um Facebook síðu peðsins, netfanginu Pedid.leik@gmail.com og í miðasölusíma sem verður auglýstur síðar, ásamt nánari sýningartímum.

Aðeins þessar sex sýningar – Miðaverð kr. 1.300.-
Sýningin tekur um  klukkutíma.

{mos_fb_discuss:2}