Leikfélag Selfoss er ekki þekkt fyrir metnaðarleysi. Nú skal haldið í víking til Danmerkur en þar mun leikfélagið taka þátt í leiklistarhátíðinni NoBa 4.-10. júlí í Thisted á Jótlandi. NoBa er nýleg og mjög spennandi hátíð áhugaleikfélaga úr smábæjum í Norður-Evrópu.

Sýningin sem Leikfélag Selfoss fer með á hátíðina heitir Kjánar og kynlegir kvistir og er skemmtileg blanda þjóðsagna og þjóðsagnapersóna úr hinum íslenska menningararfi. Sýningin er í raun fjögur stuttverk sem öll hafa verið sett upp hjá leikfélaginu síðustu ár en er nú skeytt saman í eina sýningu.

Verkin sem um ræðir eru Bakkabræður og Leitin að Stúfi eftir Don Ellione og Djákninn á Myrká eftir Guðný Láru Gunnarsdóttir og Stefán Örn Viðarsson en þau eru öll félagar í Leikfélagi Selfoss. Einnig er verkið Gilitrutt eftir Þórunni Guðmundsdóttur.

Leikfélag Selfoss mun sýna þrjár fjáröflunarsýningar á verkinu í Litla leikhúsinu við Sigtún til að safna í ferðasjóð fyrir utanlandsferðinni. Frumsýning verður 26. júní en einnig verður sýnt 27. júní og 2. júlí en sýnt er í Litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi. Leikhópurinn lætur ekki þar við sitja enda mikið hæfileikafólk. Haldnir verða tveir fjáröflunartónleikar, þeir fyrri 27. júní í Litla leikhúsinu við Sigtún og þeir seinni á Café Rósenberg í Reykjavík 30. júní. Nánar er hægt að fræðast um sýninguna á fésbókarsíðunni Kjánar og kynlegir kvistir og á heimasíðu leikfélagsins, leikfelagselfoss.is.

Leiksýningar:

Frumsýning       Föstudagur 26. Júní                        kl. 20:00            Litla leikhúsið við Sigtún

2. sýning            Laugardagur 27. júní                       kl. 14:00            Litla leikhúsið við Sigtún

3. sýning            Fimmtudagur 2. Júlí                        Kl. 20:00            Litla leikhúsið við Sigtún

Tónleikar:

Fyrri                        Laugardagur 27. júlí                      Kl. 21:00            Litla leikhúsinu við Sigtún

Seinni                     Þriðjudagur 30. júní                      Kl. 21:00            Café Rósenberg

Engar miðapantanir, bara að mæta. Miðaverða á leiksýningar er 1000 kr., miðaverða á tónleika er 1500 kr. Hægt er að fá afslátt, ein leiksýning og tónleikar fyrir 2000 kr. Svo er ekkert sem bannar að borga meira til að hjálpa félaginu enn frekar í fjáröfluninni.