Föstudaginn 18. janúar frumsýnir Leikfélag Selfoss leikritið Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Lilju Nóttar Þórarinsdóttur. Í verkinu fáum við að fylgjast með upprifjun ungs manns á æskuárum sínum og lífi ósköp venjulegrar fjölskyldu á sjötta áratugnum. Mörg kunnug og skemmtileg dægurlög prýða verkið og ekki ólíklegt að leikhúsgestir finni hjá sér þörf að tralla aðeins með. Sýningar eru í Litla leikhúsinu við Sigtún.

Verkið er m.a. þroskasaga ungs manns og kynnumst við honum, fjölskyldu hans og nágrönnum á gleðistundum sem og á verri stundum. Sögur persónanna fléttast saman, draugar fortíðar vakna og draumar framtíðar birtast. Það er bæði hlegið og grátið og allt þar á milli. Tónlistin í verkinu er landsmönnum vel kunn og setur punktinn yfir i-ið.

Þrek og tár var fyrst frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1995 og naut mikilla vinsælda, enda hefur Ólafur Haukur jafnan átt auðvelt með að rýna inní sálartetur okkar Íslendinga. Það er samt magnað og umhugsunarvert að verk sem skrifað er og frumsýnt 1995 um íslenskan veruleika í kringum 1960 skuli enn þann dag í dag eiga við okkur jafn mikið erindi. Pólitískt pex, peningamenn, ást og útrás, æðri menntun og músík.

Það er sérstaklega skemmtilegt að skoða listann yfir lögin í leikritinu Þrek og tár. Lögin sem um ræðir vöru flest öll gífurlega vinsæl á árunum sem leikritið gerist en það er líka merkilegt að skoða þá staðreind að vinsældirnar hafa lítið sem ekkert dvínað og eru lög eins og Fjórir kátir þrestir og titillagið sjálft, Þrek og tár, fyrir löngu búin að grafa sig á bólakaf í þjóðarsál Íslendinga og eru nánast tímalaus með öllu.

Leikfélag Selfoss er eitt af elstu og afkastamestu áhugaleikfélögum landsins sem hefur á sínum snærum fjöldan allan af hæfileikaríku fólki, jafnt til að starfa fram- og baksviðs en alls taka um 30 manns þátt í sýningunni.

Miðapantanir í síma 4822787 og á leikfelagselfoss@gmail.com