Á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 21. apríl kl. 15 verður barnaleikritið Ævintýraþjófarnir frumsýnt í Bæjarleikhúsinu. Í tilefni þess að Leikfélag Mosfellssveitar var valið bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2015 langar okkur að þakka fyrir okkur og því er öllum bæjarbúum, ungum sem öldnum, boðið á sýninguna.
Ævintýraþjófarnir er nýtt barnaleikrit byggt á gömlum íslenskum ævintýrum skrifað af Maríu Guðmundsdóttur og Brynhildi Sveinsdóttur ásamt leikhóp og leikstjóra. Þegar nokkrir félagar frétta af elstu og dýrmætustu ævintýrabók Íslendinga sem inniheldur öll þau ævintýri sem Íslendingar hafa skrifað, ætla þau heldur betur að græða. Þau brjótast inn í Sögusafnið þar sem bókin hefur verið varðveitt í mörg hundruð ár til þess að stela henni og selja dýrum dómi. En þegar þau koma inn í sögusafnið hefur það ófyrirsjáanleg áhrif og þau uppgötva leyndardóma ævintýranna.
Sýndar verða eftirfarandi:
Fimmtudaginn 21. apríl kl. 15
Fimmtudaginn 21. apríl kl. 17
Sunnudaginn 24. apríl kl. 15
Sunnudaginn 24. apríl kl. 17
Aðgangur er ókeypis á allar sýningar. Miðapantanir í síma 566 7788.
Lumar þú á ævintýri eða langar til þess að skrifa nýtt ævintýri?
Leikfélag Mosfellssveitar safnar ævintýrum í Ævintýrabókina og hvetur alla sem koma að sjá sýninguna, bæði börn og fullorðna, til að skrifa ævintýri og koma með í leikhúsið. Ævintýrunum verður safnað saman í Ævintýrabókina og þau varðveitt fyrir alla áhugasama til að lesa um ókomin ár. Ævintýrin mega vera um hvað sem er og nú gildir bara að leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín. Ekki gleyma að myndskreyta.