Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta og fjórða sinn. Að þessu sinni sóttu alls ellefu leikfélög um að koma til greina við valið með tólf sýningar.

Að valinu á áhugasýningu ársins komu að þessu sinni fjórir leikarar úr leikhópi Þjóðleikhússins, þau Atli Rafn Sigurðarson, Edda Arnljótsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Snorri Engilbertsson, ásamt Ara Matthíassyni þjóðleikhússtjóra.

Eftirtalin leikfélög sóttu um með þessar sýningar:

  • Freyvangsleikhúsið: Góðverkin kalla. Höfundar: Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Leikstjórn: Oddur Bjarni Þorkelsson og Margrét Sverrisdóttir.
  • Halaleikhópurinn: Farið. Höfundur: Ingunn Lára Kristjánsdóttir. Leikstjórn: Margret Guttormsdóttir.
  • Leikdeild Skallagríms: Leikið í 100 ár. Samið af félögum í leikdeildinni, byggt á sögu leikfélagsins. Leikstjórn: Jónas Þorkelsson.
  • Leikdeild Skallagríms: Saumastofan. Höfundur: Kjartan Ragnarsson. Leikstjórn: Gunnar Björn Guðmundsson.
  • Leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja: Láttu ekki deigan síga Guðmundur. Höfundar: Edda Björgvinsdóttir og Hlín Agnarsdóttir. Leikstjórn: Vilborg Halldórsdóttir.
  • Leikfélag Hveragerðis: Naktir í náttúrunni. Byggt á The Full Monty. Leikgerð og leikstjórn: Jón Gunnar Þórðarson.
  • Leikfélag Keflavíkur: Litla hryllingsbúðin. Höfundur: Howard Ashman. Leikstjórn: Þorsteinn Bachmann.
  • Leikfélag Kópavogs: Snertu mig – ekki! Höfundur: Örn Alexandersson. Leikstjórn: Sigrún Tryggvadóttir.
  • Leikfélag Kópavogs: Svarti kassinn. Höfundur: Hrefna Friðriksdóttir. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir.
  • Leikfélag Mosfellssveitar: Skilaboðaskjóðan. Höfundur: Þorvaldur Þorsteinsson. Leikstjórn: Agnes Wild.
  • Leikfélag Selfoss: Uppspuni frá rótum. Höfundar: Ármann Guðmundsson, Þorgeir Tryggvason og Sævar Sigurgeirsson. Leikstjórn: Þórey Sigþórsdóttir.
  • Leikfélag Ölfuss: Listin að lifa. Höfundur: Sigríður Lára Sigurjónsdóttir. Leikstjórn: Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson.

Sýningar leikársins báru kraftmiklu starfi áhugafélaganna fagurt vitni. Starfsemi Leikfélags Kópavogs vakti sérstaka athygli dómnefndar, en það frumflutti tvö áhugaverð ný, íslensk verk í metnaðarfullum sýningum.

Fyrir valinu að þessu sinni sem áhugasýning ársins varð sýning Leikfélags Hveragerðis á Naktir í náttúrunni.

Umsögn dómnefndar um sýninguna er svohljóðandi:

„Naktir í náttúrunni í uppsetningu Leikfélags Hveragerðis er leikgerð leikstjórans, Jóns Gunnars Þórðarsonar, sem byggð er á The Full Monty, verki um atvinnulausa menn sem taka sig saman og fara að æfa strippdans til að hafa í sig og á. Þessi leið, að vinna með þekkt verk og aðlaga það leikhópnum og aðstæðum í heimabyggð, heppnast hér ákaflega vel, og sýningin öðlast aukinn áhrifamátt við það að atvinnumissir persónanna er settur í kunnuglegt samhengi. Verkið krefst ákveðinnar djörfungar af leikhópnum, og hópurinn leggur sig allan fram í metnaðarfullri, kraftmikilli og skemmtilegri sýningu.“

Þjóðleikhúsið óskar Leikfélagi Hveragerðis til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna sýninguna í Þjóðleikhúsinu í júní.